Erindi Jónasar við okkur

getfileGunnarshólmi er ekki besta kvæði Jónasar Hallgrímssonar. Í mörgum öðrum verkum nýtur sín betur sérstakur hæfileiki skáldsins til að orða algild sannindi á tæran, þýðan og einfaldan hátt. En Gunnarshólmi er sterkasta kvæði Jónasar, vegna þess að þjóðin tekur það beint til sín. Gunnar á Hlíðarenda er kappinn, sem ákveður að vera um kyrrt á landinu. Hann er tákn um tilvistarvon lítillar þjóðar á hjara veraldar.

Í því sambandi veltur ekkert á því, að með gerðum sínum rýfur Gunnar sátt, sem er nauðsynlegt skilyrði þess, að menn geti byggt landið. Því síður skiptir máli, að Jónas Hallgrímsson misskilur söguna, sem hann yrkir um: Auðvitað snýr Gunnar ekki aftur vegna ættjarðarástar, sem var ekki til á dögum hans. Hann er hræddur um, að kona sín, Hallgerður Langbrók, verði sér ótrú, á meðan hann sé ytra. Hún hafði áður verið öðrum manni sem kona, eins og segir í 41. kafla Njálu.

Sannleikur skáldskaparins er ofar þessum einstöku atvikum. Hann snýst um drauminn og valið. Draumurinn er að vera kappi eins og Gunnar á Hlíðarenda, afbragð annarra manna, stökkva hæð sína í fullum herklæðum. Forðum virtist sá draumur vera eins og hugarflótti undan hráköldum veruleika, óráðshjal á erlendum krám. Á síðmiðöldum og fram á nítjándu öld voru Íslendingar ein fátækasta þjóð Norðurálfunnar. Þeir áttu ekkert nema þrjóskuna og handritin.

Þetta breyttist í lok nítjándu aldar, þegar Danir færðu okkur atvinnufrelsi, og fjármagn varð til í landinu. Eftir féllu menn ekki úr hor eða hröktust vestur um haf, heldur fluttust þeir til Reykjavíkur og annarra blómlegra útgerðar- og verslunarstaða. Þó voru Íslendingar aðeins hálfdrættingar í lífskjörum á við Dani fram undir 1940. Næstu fimmtíu árin nutu þeir að vísu góðra tekna, en það mátti því miður rekja til rányrkju á Íslandsmiðum og stríðsgróða í heitu stríði og köldu.

Eftir 1991 var breytt um stefnu, festa kom í stað lausungar í fjármálum og peningamálum og frelsi í stað skömmtunarvalds í atvinnulífi. Íslendingar skipuðu sér í fremstu röð. Þá má segja, að draumurinn hafi loks ræst. Á sama hátt og Gunnar á Hlíðarenda ber af öðrum mönnum, ber nú íslenska þjóðin af öðrum þjóðum. Garðar Hólm er ekki lengur hinn dæmigerði Íslendingur.

Gunnarshólmi Jónasar er líka um valið, sem við stöndum andspænis. Hvernig má búa svo um hnúta í síminnkandi heimi, að hæfileikamenn verði um kyrrt á Íslandi, en setjist ekki að annars staðar? Svarið blasir við: Með því að fjölga hér tækifærum, sem þessir menn geta gripið sjálfum sér og um leið öðrum í hag. Brýnast er að halda áfram að lækka skatta á fyrirtæki og einstaklinga, eins og gefið hefur góða raun síðustu sextán ár. Með því fær lífsandi loft, sköpunarmátturinn er virkjaður inn í landið, ekki út úr því. Með lágum sköttum getur Ísland orðið alþjóðleg fjármálamiðstöð, Sviss norðursins. 

Jónas Hallgrímsson á því erindi við okkur. Sannleikurinn í Gunnarshólma er, að við megum ekki hrekja snjöllustu menn þjóðarinnar burt. Til þess að við getum elskað landið, verður landið að vera elskulegt. Og elskulegt er það land, þar sem friður ríkir og frelsi býr.

Lesbók Morgunblaðsins 17. nóvember 2007. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband