30.10.2007 | 08:14
Vitleysur um vaxtamun
Í kvöldfréttatíma Sjónvarpsins sunnudaginn 28. október birti Valgerður Jóhannsdóttir frétt um þá fullyrðingu Þorvaldar Gylfasonar í Silfri Egils þá um daginn, að vaxtamunur væri hér miklu meiri en í grannríkjunum. Hann væri rösk 13%. Þetta er að vísu ekki meiri frétt en svo, að vitnað var til Þorvaldar um hið sama fyrir tæpu ári í Silfri Egils (sem þá var sent út á Stöð tvö). Ég skrifaði honum þá og spurði, hvernig hann fengi út svo háa tölu. Ég fékk ekkert svar. Ég fann þá, hvernig Þorvaldur reiknaði þetta út. Hann dregur innlánsvexti á sparisjóðsbókum frá útlánsvöxtum á óverðtryggðum skammtímalánum (til dæmis 60 daga víxlum). Þannig fær hann sinn mikla vaxtamun. Ég skrifaði Þorvaldi aftur og sagðist myndu hafa þetta fyrir satt, ef hann mótmælti ekki. Enn fékk ég ekkert svar.
Reikningsaðferð Þorvaldar er fráleit. Aðeins er um 1,5% innlána geymt á sparisjóðsbókum, og meginþorri allra útlána til heimila (um 85%) eru húsnæðislán, ekki óverðtryggð skammtímalán. Samkvæmt hinni alþjóðlegu og viðurkenndu reikningsaðferð, sem Seðlabankinn notar meðal annars í skýrslum sínum, er vaxtamunur inn- og útlána nú um 1,9% og hefur lækkað talsvert síðustu ár. Hann var til dæmis 3,3% árið 2001, árið áður en gengið var frá sölu Landsbankans og Búnaðarbankans. Þessi vaxtamunur er reiknaður sem munurinn á heildarvaxtatekjum og heildarvaxtagjöldum bankanna í hlutfalli af meðaltali niðurstöðu efnahagsreikninga þeirra í upphafi og lok árs. Um þetta var rækilega rætt í blöðum og tímaritum á öndverðu ári 2007.
Allir sjá, ef munur á inn- og útlánum er almennt langt yfir 10%, að þá hlytu erlendir bankar að flykkjast til Íslands til þess að taka þátt í stórgróðanum hér. Þá væru ávöxtunartækifæri hér miklu betri en annars staðar í heiminum. Fullyrðing Þorvaldar Gylfasonar er úr lausu lofti gripin. Það er jafnfráleitt að segja sérstaka frétt af þessari fullyrðingu hans og hinni, að þriggja metra maður hafi sést ganga niður Laugaveginn. Það er enginn maður þriggja metra hár. Valgerður Jóhannsdóttir er óvenju gamansamur fréttamaður. Hún vill láta okkur hlaupa apríl allt árið. Hún birtir frétt, sem fær augljóslega ekki staðist. Í annan stað er fréttin ársgömul. Þetta er gömul lumma, sem nú er borin fram upphituð. Í þriðja lagi leitar Valgerður ekki álits neins, sem eitthvað getur sagt um málið af viti. Á hún ekki betur heima á Spaugstofunni en fréttastofunni?
Viðskiptablaðið 30. október 2007.
[Eftir að ég birti þessa grein, kom í ljós, að Þorvaldur Gylfason hafði ekki notað hina gömlu útreikninga sína, heldur nýlega fengið rangar tölur hjá Seðlabankanum og rokið með þær að óathuguðu máli í fjölmiðla. Skekkjan í tölum Seðlabankans um vexti var raunar augljós, eins og kom fram í leiðréttingu hans.]
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.11.2007 kl. 23:05 | Facebook