6.10.2007 | 13:19
Er heimurinn enn að farast?
Andstæðingar vestræns kapítalisma, sem vaxið hefur upp og dafnað síðustu aldir, nota ætíð sams konar röksemdir: Þegar skip sekkur, hljóta menn að hraða sér út í björgunarbátana. Við lífsháska er enginn tími til að spyrja spurninga og því síður til að velja og hafna. Eitt afbrigði þessarar röksemdar, sem sumir sérfræðingar nota, er hrakspáin: Ef ekki er farið að ráðum sérfræðinganna og það strax, þá er voðinn vís. Mér er minnisstætt dæmi frá Bretlandi vorið 1981. Þá skrifuðu 364 hagfræðingar undir áskorun til stjórnvalda um að breyta tafarlaust stefnu þeirri í efnahagsmálum, sem frú Margrét Thatcher fylgdi undir áhrifum frá hagfræðingunum Milton Friedman og Friedrich von Hayek, en hún fólst í ströngu aðhaldi í peningamálum og ríkisfjármálum, niðurfellingu opinberra styrkja til óarðbærra fyrirtækja, sölu ríkisfyrirtækja og auknu frelsi í viðskiptum. Hagfræðingarnir 364 fullyrtu, að Bretar sigldu hraðbyri til glötunar. Á þingfundi skoraði Michael Foot, leiðtogi Verkamannaflokksins, á frú Thatcher að nefna einhverja breska hagfræðinga, jafnvel þótt þeir væru aðeins tveir, sem fylgdu henni að málum. Alan Walters og Patrick Minford, svaraði hún að bragði. Ég var síðar staddur, þar sem járnfrúin rifjaði þetta atvik upp. Hún sagði hlæjandi, að hún hefði verið fegin, að Foot krafði hana ekki um þrjú nöfn. Þá hefði hún ekki getað svarað. Frú Thatcher hvikaði ekki og átti eftir að sigra tvisvar aftur í þingkosningum. Bretland blómgaðist undir stjórn hennar, og þegar Verkamannaflokkurinn endurheimti völdin, datt forystumönnum hans ekki í hug að hverfa til fyrri hátta. Ég lærði af þessu, að ráð sérfræðinga verða ekki því betri sem þeir fara fleiri saman. Ég hef látið þá skoðun í ljós hvað eftir annað, ekki síst í umræðum um loftslagsbreytingar, en þar sem Guðni Elísson bókmenntafræðingur ræðst harkalega á mig í Lesbók Morgunblaðsins 29. september fyrir þetta, tel ég mér skylt að rifja hér nokkur atriði upp og bæta öðrum við.
Hrakspár: Sannleiksleit eða valdabarátta?
Vorið 1987 var ég að klippa heimildarmynd í Sjónvarpinu, þegar einn starfsmaður þar kom inn í klippiklefann og sagði við mig í vorkunnartón: Jæja, núna er þetta búið hjá ykkur. Hvað? Ja, Davíð, vinur þinn, verður að hætta við að byggja ráðhúsið. Það var verið að segja frá því núna í hádegisfréttunum, að þrír vísindamenn hefðu fundið út, að ef byrjað verður að grafa fyrir ráðhúsinu, þá muni Tjörnin hverfa á þremur vikum. Ég spurði, hverjir vísindamennirnir væru: Guðrún Pétursdóttir líffræðingur, Guðni Jóhannesson verkfræðingur og Ásta Þorleifsdóttir jarðvegsfræðingur. Guðrún hafði á sama tíma orð fyrir þeim, sem andvígir voru smíði Ráðhússins. En Davíð Oddsson borgarstjóri lét sér fátt um niðurstöðu þeirra Guðrúnar finnast, og ráðhúsið reis. Tjörnin er enn á sínum stað. Ég rakst á þriðja dæmið í Morgunblaðinu fyrir þrjátíu árum. Þar sagði 10. júní 1977 frá blaðamannafundi, sem fyrirlesarar á alþjóðlegri umhverfisráðstefnu héldu. Fyrirsögnin var Lítil ísöld fyrir aldamót? Bandarískur prófessor, Reid Bryson, kvað líkur á nýrri ísöld. Mannkynið yrði að búa sig undir harðindi og gæti sitt hvað lært af íslenskum bændum, sem hefðu metið á hverju ári, hversu margt fé væri á vetur setjandi. Aðrir fyrirlesarar á ráðstefnunni voru sömu skoðunar.
Mörg heimsendarit komu út á æskuárum mínum í íslenskum þýðingum og vöktu óskipta athygli. Eitt hið frægasta var Raddir vorsins þagna 1962 eftir bandaríska líffræðinginn Rachel Carson, þar sem hún fullyrti, að fuglalífi stafaði stórhætta af skordýraeitrinu D. D. T., sem beitt var í baráttu við mýrarköldu (malaríu). Eftir þetta var eitrið víða bannað. En í ljós hefur komið, að hættan af D. D. T. er orðum aukin. Á meðan hafa margar milljónir manna í fátækum löndum dáið úr mýrarköldu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, W. H. O., hefur því lagt til, að efnið, sem er ódýrt í framleiðslu og auðvelt að nota, verði aftur leyft. Annað rit og alræmt var Endimörk vaxtarins 1972, sem var skýrsla frá hópi áhyggjufulls áhugafólks. Þar var því haldið fram í anda breska hagspekingsins Tómasar Malthusar, að fólki væri að fjölga og neysla þess að aukast hraðar en náttúran þyldi. Ýmis hráefni jarðar væri því að ganga til þurrðar. Mannkynið yrði að gerbreyta lífsháttum sínum. En höfundar skýrslunnar höfðu hvorki tekið með í reikninginn tækniþróun, þar á meðal ýmsar óvæntar nýjungar, né aðlögun í krafti frjálsrar verðmyndunar (þar sem verð hækkar á vöru við skort á henni, en við það dregur úr eftirspurn, og öfugt). Hrakspárnar í skýrslunni hafa ekki ræst. Þar sagði til dæmis, að gull yrði þrotið árið 1979, jarðolía 1990, kopar 1991 og ál 2001. Nóg er til af öllum þessum efnum.
Blöð birta enn reglulega fréttir um, að skógar séu að hverfa, svo að jörðin hætti að geta andað. En skógar þekja nú jafnmikið flæmi og fyrir fimmtíu árum, auk þess sem þeir eiga miklu minni þátt í nauðsynlegri súrefnismyndun en margar aðrar plöntur, aðallega svif sjávar. Í sjónvarpsfréttum eru stjórnmálamenn og trúarleiðtogar iðulega myndaðir á Norðurslóðum, þar sem þeir lýsa yfir áhyggjum af því, að ísbirnir séu að hverfa. Það er rétt, að frá 1987 til 2004 fækkaði ísbjörnum á vesturströnd Hudson-flóa úr 1.200 í 950. En dýrin voru aðeins um 500 árið 1981, svo að fjöldi þeirra hefur tvöfaldast á tuttugu árum. Sú hugsun læðist að mér, að hrakspámenn séu stundum síður að leita sannleikans en vekja á sér athygli, fá styrki og öðlast völd. Tímaritið Science birti í nóvember 2006 skýrslu um ástand og horfur í fiskveiðum. Þar var sagt, að fiskistofnar heims kynnu að hrynja innan fjörutíu ára. Þetta var forsíðuefni í íslenskum blöðum, og þegar Jóhann Sigurjónsson, forstöðumaður Hafrannsóknastofnunar, taldi hættuna orðum aukna, sætti hann ákúrum. Aðalhöfundur skýrslunnar var Boris nokkur Worm, aðstoðarprófessor í Dalhousie-háskóla í Halifax í Nova Scotia. Fyrir mistök barst blaðamanni tölvuskeyti, sem Worm hafði sent samstarfsfólki sínu, þar sem hann viðurkenndi, að spáin um hrun fiskistofna hefði verið auglýsingabrella.
Borgar sig að berjast gegn gróðurhúsaáhrifum?
Nú er okkur skipað að trúa þrennu, að jörðin sé að hlýna, að það sé að mestu leyti af manna völdum, aðallega vegna losunar koltvísýrings í andrúmsloftið, og að við getum og verðum að snúa þeirri þróun við, en til þess hljótum við að gerbreyta lífsháttum okkar. Hefur Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, flutt þennan boðskap í heimildarmynd, og margir tekið undir með honum, Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og fleiri. Guðni Elísson talar í Lesbókinni um, að ég sé málpípa ráðandi afla. Hvað er hann þá? Ég held, að munurinn sé frekar sá, að Guðni gengur fram undir upphrópunarmerkinu, en ég vel mér spurningarmerkið. Jörðin hefur hlýnað og kólnað á víxl allt sitt skeið. Okkur var kennt í skóla, að aðeins væru tíu þúsund ár liðin frá síðustu ísöld. Hvað olli þeirri hlýnun, sem batt endi á hana? Og hvers vegna var hlýtt í veðri um og eftir 1000, en kólnaði aftur á litlu ísöldinni frá um 1600 til um 1900? Vatnajökull var talsvert minni á landnámsöld en nú, ef marka má heimildir, og tvíklofinn, og gengu menn þurrum fótum milli jöklanna tveggja. Loftslag tekur sífelldum breytingum, ekki aðeins frá einum tíma til annars, heldur samtímis á ólíkum stöðum. Raunar getur hlýnað á einum stað, um leið og kólnar á öðrum, svo að erfitt er að segja, að hugtak eins og meðalhiti jarðar hafi skýra merkingu.
Hvers vegna ættum við að trúa hrakspá Als Gores frekar en öllum hinum, sem á okkur hafa dunið og ekki ræst? Algengasta svarið er það, sem Guðni Elísson klifar á, að þorri vísindamanna sé á þessu máli, til dæmis þrjú þúsund manna nefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, I. P. C. C. Þá verður mér aftur hugsað til hagfræðinganna 364 í Bretlandi vorið 1981. Raunar eru margir í þessari fjölmennu nefnd Sameinuðu þjóðanna ekki eiginlegir eða virkir vísindamenn, heldur embættismenn með háskólapróf. Sumir nefndarmenn hafa andmælt því, sem þeir telja oftúlkun varnaðarorða í skýrslum nefndarinnar, jafnt í útdráttum fyrir fjölmiðla og einnig í sjálfum fjölmiðlunum. Fámennur minni hluti vísindamanna hefur gagnrýnt hinn nýja rétttrúnað með ýmsum rökum. Þeir minna á hlýnun jarðar, áður en menn tóku að losa koltvísýring út í andrúmsloftið með brennslu lífrænna efna eins og kola og olíu, og benda á, að svo virðist sem kólnað hafi víða í veðri árin eftir seinna stríð og fram undir 1980, þótt á sama tíma hafi losun gróðurhúsalofttegunda aukist. Muna ekki allir Íslendingar, sem komnir eru yfir miðjan aldur, eftir sífelldum fréttum Ríkisútvarpsins um kal í túnum um og eftir 1960? Ég var þá í barnaskóla, og stundum féll þá kennsla niður sökum fannfergis.
Hitt er annað mál, að kenningin um hlýnun jarðar af manna völdum er að minnsta kosti þríþætt. Menn geta aðhyllst eina skoðun úr henni og ekki aðra. Til dæmis telur danski stjórnmálafræðingurinn Björn Lomborg, sem hefur rýnt í gögn um málið, að hvort tveggja sé, að jörðin sé að hlýna og að það sé að einhverju leyti af manna völdum, en að takmörkuðu fé okkar sé betur varið til annars en að berjast gegn þessari hlýnun, enda hafi hún í senn jákvæðar og neikvæðar afleiðingar. Deyja ekki miklu fleiri úr kulda en hita á hverju ári? Aðgerðir gegn útblástri koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda muni sáralitlu breyta, segir Lomborg, en kosta stórfé, sem nær væri að nota gegn mýrarköldu og alnæmi og til að tryggja aðgang fólks í fátækum löndum að hreinu vatni. Vaclav Klaus, forseti Tékklands, er sammála Lomborg um, að við getum ekki gerbreytt lífsháttum okkar fyrir eina vísindalega tilgátu. Á dögunum hittust fjölmargir þjóðarleiðtogar á þingi Sameinuðu þjóðanna til að ræða loftslagsbreytingar. Klaus skoraði þá opinberlega á Gore í rökræðu við sig um efnið: Hlýnun jarðar jafngildir ekki kreppu (Global warming is not a crisis). Gore sinnti því engu. Klaus sagði í Financial Times 13. júní, að loftslagið væri ekki í veði, heldur frelsið. Þar eð ég bjó við kommúnisma mestalla ævina, verð ég að benda á, að nú er frelsi, lýðræði, markaðsviðskiptum og hagsæld okkar hætta búin af umhverfisverndaröfgum frekar en kommúnisma. Þessi nýja hugmyndafræði ætlar sér að setja í stað frjálsrar og sjálfsprottinnar þróunar mannkyns eins konar miðstýrðan áætlunarbúskap.
Blekkingin mikla um hlýnun jarðar
Hvers vegna tók Gore ekki áskorun Klaus? Hann er ef til vill hræddur um, að eins fari fyrir honum og þremur eindregnum hrakspámönnum í marsmánuði síðast liðnum. Þá háðu þeir kappræðu í Nýju Jórvík við jafnmarga efasemdamenn, Richard Lindzen, prófessor í loftslagsfræði í Tækniháskólanum í Massachusetts (M. I. T.), Philip Stott, fyrrverandi prófessor í jarðlíffræði við Lundúnaháskóla, og rithöfundinn Michael Crichton. Áheyrendur voru mörg þúsund, og voru skoðanir þeirra kannaðar fyrir og eftir kappræðuna. Fyrir fundinn kváðust 57% áheyrenda telja, að hlýnun jarðar jafngilti kreppu, en 30% voru því andvíg. Eftir fundinn höfðu margir skipt um skoðun. Þá kváðust 42% áheyrenda telja, að hlýnun jarðar jafngilti kreppu, en 46% voru því andvíg. Um svipað leyti var heimildarmyndin Blekkingin mikla um hlýnun jarðar sýnd hér í Sjónvarpinu. Þar var lýst annarri kenningu, sem er, að sólin hefði með virkni sinni, en í flóknu ferli, mest áhrif á loftslagsbreytingar. Þessi heimildarmynd hefur sætt harðri gagnrýni, sem eflaust er eitthvað til í. En mynd Gores er ekki síður reist á veikum stoðum. Á vefsíðu Veðurstofu Íslands hefur birst plagg, sem virðist vera opinber skoðun stofnunarinnar á Blekkingunni miklu um hlýnun jarðar. Hvers vegna gagnrýna veðurfræðingarnir ekki líka mynd Als Gores? Vísindin eiga ekki að vera kórsöngur undir einni stjórn, heldur frjáls samkeppni hugmynda.
Það er ekki fréttnæmt, þegar hundur bítur mann, heldur þegar maður bítur hund. Fjölmiðlar hafa lítinn áhuga á fréttum um það, að heimurinn sé ekki að farast. Í ársbyrjun 2004 sagði Morgunblaðið frá grein eftir nítján vísindamenn í tímaritinu Nature um það, að hundruð dýra- og plöntutegunda myndu deyja út næstu hálfa öld. Töldu þeir, að um 15-37% þeirra tegunda, sem þeir rannsökuðu, yrðu horfnar árið 2050. Við höfum þegar séð að vistkerfin bregðast mjög hratt við loftslagsbreytingunum, sagði Chris Thomas, aðalhöfundur greinarinnar. En í árslok 2006 birtist grein í tímaritinu Global Change um það, að Thomas og meðhöfundar hans hefðu hagrætt staðreyndum. Miklu færri tegundir dýra og plantna væru í útrýmingarhættu en þeir hefðu haldið fram. Margsagt hefur verið, að árið 1998 hafi verið heitasta ár aldarinnar í Bandaríkjunum, til dæmis í frétt í Morgunblaðinu 11. febrúar 2005, þar sem James Hansen, sérfræðingur bandarísku geimferðastofnunarinnar um loftslagsmál, kvað svo að orði: Undanfarin þrjátíu ár hefur hitastigið greinilega farið stigvaxandi, og sýnt hefur verið fram á að þessi hitaaukning sé fyrst og fremst afleiðing þess að magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu hefur aukist. En tölfræðingurinn Steve McIntyre hefur nýlega leitt rök að því, að árið 1934 hafi verið heitara. Tíu heitustu ár aldarinnar reyndust samkvæmt útreikningum McIntyre í þessari röð: 1934, 1998, 1921, 2006, 1931, 1999, 1953, 1990, 1938, 1939. Hefur geimferðastofnunin viðurkennt villuna og leiðrétt á heimasíðu sinni. Nú í október birtir kunnur bandarískur loftslagsfræðingur, Stephen Schwartz, niðurstöður sínar, en samkvæmt þeim hafa áhrif losunar gróðurhúsalofttegunda á loftslag verið stórlega ofmetin. Schwartz var á meðal höfunda einnar áfangaskýrslu nefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál.
Efasemdamenn um loftslagsbreytingar eru vissulega miklu færri en rétttrúnaðarsinnar. En í mínum huga ræður það ekki úrslitum. Ég undrast miklu frekar þá ákefð, sem rétttrúnaðarsinnar sýna. Ef háskólamenn leyfa sér að láta í ljós efasemdir, þá eru þeir sviptir styrkjum og störfum og settar yfir þeim siðanefndir, eins og Lomborg mátti þola í Danmörku, þótt andstæðingar hans færu þar sneypuför. Ég varð hins vegar ungur fyrir áhrifum frá John Stuart Mill, sem skrifaði: Þótt gervallt mannkyn, að einum frátöldum, væri sömu skoðunar og aðeins þessi eini á öndverðum meiði, þá hefði mannkynið engu meiri rétt til að þagga niður í honum en hann til að þagga niður í því, væri það á hans valdi. Mér blöskrar líka tvöfalt siðgæði sumra rétttrúnaðarsinna. Stjórnmálamenn þeysa um heiminn í einkaþotum til að prédika gegn loftslagsbreytingum af manna völdum, en slíkar einkaþotur losa miklu meira af gróðurhúsalofttegundum á hvern notanda en nokkur önnur farartæki. Veðurfræðingar skrifa yfirlætislegar greinar um loftslagsbreytingar næstu fjörutíu ára, en treysta sér ekki til að segja fyrir um, hvert veðrið verður eftir viku. Hvernig í ósköpunum ættum við að trúa þessu fólki? Og það, sem meira er: Hvers vegna ættum við að afsala okkur þægilegu lífi venjulegs Vesturlandamanns fyrir orð þeirra ein? Kapítalisminn hefur fært okkur stórkostleg lífsgæði. Ég ætla ekki í björgunarbátana, fyrr en ég er viss um, að skipið sé að sökkva.
Lesbók Morgunblaðsins 6. október 2007.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.10.2007 kl. 09:58 | Facebook