Írska efnahagsundrið

Það var fróðlegt á dögunum að hlusta á nokkra írska hagfræðinga og stjórnmálamenn lýsa hinum öru framförum síðustu tveggja áratuga í heimalandi sínu, en hér töluðu þeir á ráðstefnu Smáríkjaseturs í Háskóla Íslands um auðsköpun í smáríkjum. Eftir að Írar fengu sjálfstæði 1922, voru þeir lengi ein fátækasta þjóð Vestur-Evrópu. Heimskreppan bitnaði illa á þeim, og eftir stríð hélt fólk áfram að flytjast burt, svo að árið 1961 bjuggu aðeins 2,8 milljónir manna í írska lýðveldinu, en 120 árum áður höfðu íbúar á þessu svæði verið 6,5 milljónir. Í byrjun áttunda áratugar 20. aldar var munur á lífskjörum á Írlandi og Stóra-Bretlandi jafnmikill og í upphafi aldarinnar.

Þetta gerbreyttist í lok níunda áratugar og eftir það. Atvinnulífið óx og lífskjör bötnuðu, svo að landsframleiðsla á mann varð jafnmikil á Írlandi og Stóra-Bretlandi árið 1996. Nú er talað um „keltneska tígurinn“, eins og rætt var fyrir nokkrum áratugum um „Austurálfutígrana fjóra“, Singapore, Hong Kong, Suður-Kóreu og Tævan, vegna örra framfara þar eystra. Írar eru orðnir ein tekjuhæsta þjóð Evrópu ásamt íbúum Lúxemborgar, Svisslendingum og Íslendingum. Fólk er tekið að flytjast aftur til landsins, og atvinnuleysi, sem áður var landlægt, er nær horfið.

Hverju geta Írar þakkað efnahagsundur sitt? Sumir halda því fram, að aðildin að Evrópusambandinu 1973 hafi haft sitt að segja, enda hafa Írar þegið ómælda aðstoð úr sjóðum sambandsins. En hvernig stendur þá á því, að framfarir hafa orðið miklu hægari í Portúgal og Grikklandi, sem voru líka fátæk lönd og fengu rausnarlega aðstoð? Og hvers vegna leið hálfur annar áratugur frá inngöngunni í sambandið, áður en írska undursins tók að gæta að marki? Auðvitað var aðildin að Evrópusambandinu til góðs fyrir Íra, af því að þeim opnaðist stór markaður í Evrópu. Þar fengu þeir tækifæri. En úrslitum réð, hvernig þeir nýttu það og héldu á eigin málum.

Í lok níunda áratugar sáu Írar, að þeir yrðu að hætta þrálátum hallarekstri ríkissjóðs. Þeir lækkuðu þess vegna ríkisútgjöld verulega. Jafnframt var stofnaður samráðsvettvangur ríkis, vinnuveitenda og launþega, þar sem náðist samkomulag um skattalækkanir á einstaklinga gegn hóflegri kröfugerð launþegasamtaka. Írar höfðu lengi reynt að laða erlend fyrirtæki að landinu með margvíslegum ívilnunum. Til dæmis höfðu iðnfyrirtæki, sem framleiddu til útflutnings, aðeins þurft að greiða 10% tekjuskatt allt frá 1980. Önnur fyrirtæki greiddu hærri skatt. En þegar komin var á festa í ríkisfjármálum og friður á vinnumarkaði, fjölgaði fyrirtækjum, sem vildu setjast að á Írlandi. Evrópusambandið gerði að vísu athugasemdir við hinn lága tekjuskatt á útflutningsfyrirtæki og kallaði styrk, en þá gripu Írar til þess ráðs að leggja 12,5% tekjuskatt á öll fyrirtæki.

Brendan Walsh, helsti sérfræðingur Íra í skattamálum, sagði á ráðstefnunni í Háskóla Íslands, að ein meginskýringin á írska efnahagsundrinu væri skattalækkanir á einstaklinga og fyrirtæki. Skattalækkanir á einstaklinga í samráði við verkalýðshreyfinguna tryggðu vinnufrið, og skattalækkanir á fyrirtæki löðuðu ný fyrirtæki til landsins og auðvelduðu vöxt þeirra, sem fyrir voru. Beinn aðgangur að Evrópumarkaði og góð menntun Íra (ekki síst kunnátta þeirra í alþjóðamálinu ensku) skiptu auðvitað lika miklu máli. Ástæða er til að óska frændum okkar, Írum, til hamingju með hinn góða árangur sinn. Þeir eru verðugir keppinautar. En skyldi norræna tígrinum, Íslandi, takast að stökkva fram úr hinum keltneska?

Viðskiptablaðið 18. september 2007.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband