7.9.2007 | 10:53
Tekjutenging skynsamleg
Sem betur fer fjölgar þeim óðum, sem taka undir það, að besta kjarabót almennings væri myndarleg lækkun tekjuskatts á einstaklinga. Eðlilegt væri að lækka þann tekjuskatt, sem ríkið tekur til sín, úr 23% í 17%. Slík tekjuskattslækkun myndi fela í sér, að menn greiddu um 30% skatt í heild af tekjum sínum ofan skattleysismarka. Síðan ætti að fella niður lögboðið lágmark útsvars, svo að sveitarfélög gætu keppt í alvöru um að bjóða lágt útsvar. Nú eru kostir þeirra til þess litlir, þó að þar hafi Seltjarnarnes vinninginn undir forystu Jónmundar Guðmarssonar bæjarstjóra.
Skattleysismörk og fjármagnseigendur
Sumir vilja hækka skattleysismörk. Það er óráð. Æskilegt er, að sem flestir greiði tekjuskatt, en ekki, að sumir séu skattfrjálsir og aðrir ekki, því að það freistar þeirra, sem sleppa við skattinn vegna lágra tekna, til að samþykkja hækkun hans. Skattleysismörk eru raunar miklu hærri á Íslandi en í flestum öðrum löndum. Þau eru til dæmis um 60 þúsund krónur á mánuði í tveimur grannríkjum okkar, Svíþjóð og Írlandi. Hér eru þau nú um 90 þúsund krónur á mánuði og hefðu aðeins þurft að vera 6 þúsund krónum hærri til þess að vera hin sömu (á sambærilegu verðlagi) og árið 1995.
Aðrir benda á, að um tvö þúsund skattgreiðendur hafi ekki aðrar tekjur en fjármagnstekjur, en skattur af þeim er lægri en af atvinnutekjum. Þetta er rétt, en megnið er börn og unglingar, sem njóta vaxta af bankainnstæðum, en stunda ekki venjulega vinnu. Þeir fjármagnseigendur, sem reka fyrirtæki og taka sér arð út úr því, þurfa að reikna sér endurgjald, sem þeir greiða tekjuskatt af, þótt ef til vill sé þetta endurgjald stundum of lágt samkvæmt mati skattstjóra. Hinir eru sárafáir, líklega innan við eitt hundrað alls, sem hafa verulegar tekjur af sölu hlutabréfa, húsaleigu eða vöxtum af innstæðum, en engar atvinnutekjur og þurfa því ekki að greiða tekjuskatt. Þótt smámál sé, er eðlilegt, að þeir reikni sér líka endurgjald (fyrir umsýslu með fjármagn sitt) og greiði tekjuskatt af því. Þá sleppa þeir ekki heldur við að greiða útsvar, enda njóta þeir fullrar þjónustu sveitarfélaga.
Höldum tekjutengingu
Þriðja atriðið, sem þarf að skoða, er tekjutenging bóta. Ísland er frábrugðið öðrum Norðurlöndum í því, að hér eru margvísleg framlög ríkisins til velferðarþjónustu tekjutengd í meira mæli. Til dæmis eru barnabætur til láglaunafólks rausnarlegri hér en annars staðar, en þær skerðast, eftir því sem tekjur hækka. (Þess vegna eru barnabætur að meðaltali lægri hér en annars staðar á Norðurlöndum.) Þetta er eðlilegt. Hvers vegna á að greiða tekjuháu fólki barnabætur? Hið sama er að segja um ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Hann skerðist með auknum tekjum. Það er líka eðlilegt. Ríkið á ekki að greiða auðmönnum ellilífeyri. Þeir geta séð um sig sjálfir.
Hitt er annað mál, að tekjutengingin hefst of snemma og skerðingin er of hæg. Skynsamlegra væri að hefja skerðingu bóta við hærri tekjur og skerða hraðar, svo að tekjuhátt fólk fái hvorki barnabætur né ellilífeyri. Takmarkað fé er til ráðstöfunar í velferðarþjónustu. Mestu máli skiptir, að það sé notað til að aðstoða þá, sem þurfa aðstoð, en ekki til hinna, sem eru aflögufærir. Við Íslendingar ættum að gera nýjan þjóðarsáttmála, þar sem hinir tekjuhærri sætta sig við aukna tekjutengingu gegn því, að skattar á þá og aðra lækki. Þetta ætti að vera sameiginlegt baráttumál frjálslyndra jafnaðarmanna og frjálshyggjumanna. Vonandi fá þau Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir líka öflugan stuðning launþegasamtakanna við þær skattalækkanir, sem þau boðuðu við myndun hinnar nýju stjórnar í vor.
Fréttablaðið, 7. september 2007.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.9.2007 kl. 12:00 | Facebook