Fleira ríkt fólk!

Þótt Stefán Ólafsson prófessor hafi verið iðinn að safna gögnum um tekjuskiptingu, hafa honum verið mislagðar hendur um úrvinnsluna. Skömmu fyrir síðustu þingkosningar hélt hann því til dæmis fram með skírskotun til svokallaðra Gini-stuðla, sem mæla ójafna tekjuskiptingu, að ójöfnuður hefði aukist hér langt umfram Norðurlönd og væri orðinn eins mikill og á Bretlandseyjum. En hann hafði reiknað Gini-stuðulinn fyrir Ísland rangt út. Hann átti að sleppa söluhagnaði af hlutabréfum, eins og gert er í alþjóðlegum samanburði, til dæmis í nýlegri skýrslu Evrópusambandsins. Tekjuskipting er hér svipuð og annars staðar á Norðurlöndum.

Fleiri reikningsskekkjur Stefáns

Um svipað leyti kvartaði Stefán undan því, að fjármagnseigendur greiddu aðeins 10% skatt af tekjum sínum, en launþegar hátt í 40%. Þetta er líka rangt. Fjármagnseigendur greiða í raun 26,2% af tekjum sínum (fyrst 18% tekjuskatt fyrirtækja, síðan 10% fjármagnstekjuskatt af arði út úr fyrirtækinu). Þar eð skattleysismörk eru 90 þúsund krónur á mánuði, greiða launþegar misjafnlega hátt hlutfall af tekjum sínum: Aðili með 90 þúsund króna mánaðartekjur greiðir í raun 0% tekjuskatt; aðili með 180 þúsund krónur greiðir 18% (0% af fyrstu 90 þúsund krónunum og 36% af því, sem umfram er) og svo framvegis. Vegna skattleysismarkanna kemst enginn alveg upp í 36%.

Þriðja reikningsskekkja Stefáns var, þegar hann fullyrti, að tölur norrænu tölfræðinefndarinnar um lífeyristekjur í nýlegri skýrslu væru rangar. Samkvæmt þeim voru lífeyristekjur á mann á Norðurlöndum að meðaltali hæstar á Íslandi árið 2004. Stefán benti hróðugur á, að samkvæmt sömu skýrslu væru lífeyrisgreiðslur á mann á Norðurlöndum að meðaltali næstlægstar á Íslandi. Hann gáði ekki að því, að fyrri talan var um lífeyristekjur á hvern lífeyrisþega, en seinni talan um lífeyrisgreiðslur á hvern mann á lífeyrisaldri. Á Íslandi tóku 26 þúsund manns lífeyri árið 2004, en 31 þúsund manns voru á lífeyrisaldri. Það breytir miklu, hvort deilt er í tölu með 26.000 eða 31.000.

Framlag ríka fólksins

Margt er þó hnýsilegt í gögnum Stefáns. Hann birtir til dæmis á heimasíðu sinni töflur um þróun tekjuskiptingar frá 1995 til 2004. Þar greinast skattgreiðendur í tíu jafnfjölmenna tekjuhópa. Samkvæmt gögnum Stefáns hafa kjör allra tekjuhópa batnað, en kjör hinna tekjuhæstu þó talsvert örar en hinna tekjulægstu. Hér reiknar Stefán líklegast ekki rangt. En þótt kjör hinna tekjulægstu hafi ekki batnað hér eins ört og hinna tekjuhæstu, skiptir það minna máli en hitt, að kjör hinna tekjulægstu á Íslandi hafa batnað miklu örar en kjör hinna tekjulægstu að meðaltali í aðildarlöndum Efnahags- og samvinnustofnunarinnar í París, O. E. C. D. Kjör 10% tekjulægsta hópsins hafa hin síðari ár batnað að meðaltali hér um 2,7% á ári, en um 1,8% í löndum O. E. C. D.

Annað er merkilegt í gögnum Stefáns. Árið 2004 var munur á tekjum 10% tekjulægsta hópsins fyrir og eftir skatt um 100 þúsund krónur á hvern aðila (hjón og sambýlisfólk). Munurinn á tekjum 10% tekjuhæsta hópsins fyrir og eftir skatt var hins vegar um fjórar milljónir króna. Með öðrum orðum námu beinar skatttekjur af tekjulægsta hópnum um 100 þúsund krónum á hvern aðila, en af tekjuhæsta hópnum um fjórum milljónum króna. Um sex þúsund manns voru í hverjum tekjuhóp, svo að 10% tekjulægsti hópurinn lagði samtals fram um 600 milljónir króna í almannasjóði, en 10% tekjuhæsti hópurinn um 24 milljarða króna (en það var 2004 röskur fjórðungur af heildartekjum hins opinbera af tekjuskatti). Á þessu sést vel, hversu mikilvægt efnafólk er. Það leggur miklu meira í almannasjóði.

Allir græða á auðjöfrum

Hugsum okkur, að þessir tíu tekjuhópar yrðu skyndilega ellefu og við bættist hópur með jafnháar tekjur að meðaltali og tekjuhæsti hópurinn (Mónakó yrði til dæmis sýsla á Íslandi). Þá myndu tekjur hins opinbera í einu vetfangi aukast um 24 milljarða króna. En það væru aðeins fyrstu áhrifin. Margt myndi síðan bætast við. Ríkt fólk notar ráðstöfunarfé sitt eftir skatt ýmist til fjárfestingar eða neyslu. Það, sem rennur til fjárfestingar, hleypir fjöri í atvinnulífið. Bankar lána út fé, og fyrirtæki eru stofnuð. Það, sem efnamenn nota í neyslu, hefur einnig sín áhrif. Hús hækka í verði, bílar seljast betur, veitingahús fyllast. Við þetta batna kjör almennings, og hagur ríkissjóðs vænkar. Jafnaðarmenn, sem vilja öflugt velferðarríki, ættu því að fagna, ef og þegar ríkum Íslendingum fjölgar. Það gerist með auknu atvinnufrelsi, ekki síst skattalækkunum.

Fréttablaðið 27. júlí 2007. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband