Skattalækkanir æskilegar — og nauðsynlegar

Íslendingar hafa síðustu sextán árin lækkað skatta, suma verulega, og breytt skattlagningarreglum. Aðstöðugjöld var fellt niður, einnig hátekjuskattur og eignaskattur og sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Erfðafjárskattur var lækkaður, en mestu munaði um, að tekjuskattur á fyrirtæki var lækkaður úr 45% árið 1991 í 18% árið 2001 og síðan og tekjuskattur ríkisins úr um 31% árið 1997 í 22,75% árið 2007. Þessar skattalækkanir hafa borið stórkostlegan árangur: Skatttekjur af fyrirtækjum hafa aukist úr röskum tveimur milljörðum 1991 (þegar skatturinn var 45%) í um 34 milljarða 2007 (þegar skatturinn er 18%). Skatttekjur ríkissjóðs af einstaklingum hafa líka aukist stórkostlega. Þá skilar fjármagnstekjuskattur verulegum tekjum í ríkissjóð, en áður gaf fjármagn af sér litlar tekjur, enda lá það mestallt hálfdautt í eigendalausum auðlindum eins og fiskistofnum eða eigenda- og því umhirðulausum ríkis- og samvinnufyrirtækjum.

Hjáróma raddir

396stefnetNokkrar hjáróma raddir hafa þó heyrst gegn skattalækkunum. Sumir halda því fram, að tekjur af fyrirtækjum hafi aukist, af því að margir hafi stofnað einkahlutafélög og telji því ekki fram atvinnutekjur. Þeir segja, að ríkið hafi ekki hækkað skattleysismörk eins hratt og laun hafi hækkað, svo að greiðendum tekjuskatts á atvinnutekjur hafi fjölgað hlutfallslega. Þeir kvarta líka undan því, að fjármagnstekjuskattur sé 10%, á meðan skattur á atvinnutekjur sé samtals 35,78% (22,75% til ríkisins, 13,03 í útsvar).

Þetta er allt rangt. Væri kakan föst stærð, ætti stærri sneið ríkissjóðs af fyrirtækjum að fela í sér minni sneið ríkissjóðs af einstaklingum, en sjá má, að svo er ekki. Tekjur ríkissjóðs af einstaklingum hafa aukist alveg eins og af fyrirtækjum. Það munar ekki mjög mikið um það, að skattleysismörk eru nú ekki eins há hlutfallslega og þegar þau voru hæst. Sennilega er tekjuauki ríkissjóðs af þessu um 5-8 milljarðar króna í hæsta lagi. Í þriðja lagi reikna þessir úrtölumenn rangt út fjármagnstekjuskatt og skatt á atvinnutekjur.

Rétt er að skýra þriðja atriðið nánar. Fjármagnstekjuskattur á mann, sem á og rekur fyrirtæki sitt, er í raun miklu hærri. Fyrst verður hann að reikna sér endurgjald, sem hann greiðir af tekjuskatt. Til dæmis þarf háskólamenntaður viðskiptafræðingur að reikna sér 517 þúsund króna mánaðarlaun. Síðan greiðir hann tekjuskatt fyrirtækja af hagnaði fyrirtækisins, 18%. Þegar þessu er lokið, má hann greiða sér út hagnað, sem hann ber 10% fjármagnstekjuskatt af. Auðvelt er að reikna út, að háskólamenntaður viðskiptafræðingur, sem rekur eigið fyrirtæki og er með eina milljón króna tekjur fyrir skatt, greiðir í raun 28% skatt af þeim.

Úrtölumenn reikna líka skattinn af atvinnutekjunum út rangt. Hann er í raun ekki 36%. Stafar það af skattleysismörkunum, sem eru 90 þúsund krónur á mánuði. Maður með 90 þúsund króna mánaðarlaun greiðir í raun 0% tekjuskatt. Maður með 180 þúsund króna mánaðarlaun greiðir í raun 18% tekjuskatt (0% af fyrstu 90 þúsundum sínum og 36% af næstu 90 þúsundum). Maður með 270 þúsund króna mánaðarlaun greiðir í raun 24% tekjuskatt. Og svo koll af kolli. Það er ekki fyrr en komið er upp í tiltölulega há laun, sem fjármagnseigandinn greiðir lægra hlutfall en launþeginn.

Auknar skatttekjur

Því má ekki gleyma, að þeir fjármagnseigendur, sem hafa tekjur af bankainnstæðum eða húsaleigu, hafa þegar greitt tekjuskatt af því fjármagni, sem mynda tekjur þeirra, svo að skatthlutfall þeirra er í raun hærra en 36%. En aðalatriðið er það, að fjármagnstekjuskatturinn hefur frá sjónarmiði skattyfirvalda heppnast mjög vel. Hann gefur af sér tekjur í ríkissjóð, sem áður fengust ekki. Það er eitthvað einkennilegt við það að vilja ólmur hækka hann, sem verða myndi til þess að flæma fjármagn og fyrirtæki úr landi. Í rauninni er brýnt að lækka fjármagnstekjuskatt í þeim skilningi, að hætt verði að innheimta af fyrirtækjum skatt af söluhagnaði af hlutabréfum.

Til þess eru tvær ástæður. Í fyrsta lagi er söluhagnaður fyrirtækja af hlutabréfum ekki reglulegar og eiginlegar tekjur fremur en söluhagnaður af öðrum eignum eins og til dæmis húsum. Þetta eru verðbreytingar, ekki tekjur. Verðbreytingar geta líka verið óhagstæðar, hlutabréf eða hús fallið í verði. Á þá á að myndast inneign hjá ríkissjóði? Í öðru lagi er söluhagnaður fyrirtækja af hlutabréfum ekki skattlagður í langflestum öðrum aðildarlöndum Evrópska efnahagssvæðisins. Þótt íslensk fyrirtæki geti frestað greiðslu á skatti á söluhagnaði með endurfjárfestingum, vilja þau sum ekki láta slíkar skuldbindingar standa árum saman í ársreikningum sínum. Þau hafa því sum tekið þann kost að færa bækistöðvar sínar til annarra landa, til dæmis Hollands og Noregs. Það á að vera okkur kappsmál að halda í þessi fyrirtæki.

Það er einnig brýnt að lækka tekjuskatt á fyrirtæki, svo að fyrirheit hinnar nýmynduðu ríkisstjórnar þeirra Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um hagstætt skattaumhverfi fyrirtækja verði að veruleika. Við ættum að lækka hann í 10%, því að þá væri hann örlitlu lægri en tekjuskattur á fyrirtæki á Írlandi, sem er 12,5% (en sambærilegur að því leyti, að skattstofninn hér er breiðari). Írar hafa síðustu áratugina tekið risaskref fram á við, ekki síst vegna hagstæðs skattaumhverfis fyrirtækja. Ef við lækkum tekjuskatt á fyrirtæki um 8%, minnka skatttekjur ríkisins ekki um þessi 8%, því að menn nota það, sem sparast, til ýmislegs, sem ber skatt. Gera má ráð fyrir, að um þriðjungur snúi þannig aftur í ríkissjóð. En auk þess stækkar skattstofninn, ef fyrirtæki sjá sér hag í að setjast hér að eins og þau hafa gert á Írlandi, og skattskil batna.

Ekki má gleyma almenningi. Skattalækkun er besta kjarabótin. Til þess að tekjuskattur á góðar meðaltekjur verði svipaður og á fjármagnseigendum þyrfti hann að lækka um tæp 6%, úr 22,75% í 17%. (Auk þess þyrfti að veita sveitarfélögum frelsi til að lækka útsvar eins mikið og þau vilja.) Reynslan af lækkun tekjuskatts á einstaklinga síðustu ellefu árin sýnir, að ekki þarf að óttast stórfellt tekjutap ríkissjóðs af þessu. Í fyrsta lagi myndu menn nota það fé, sem þeir spöruðu sér í skattgreiðslur, í kaup á vöru og þjónustu, sem bæri skatt. Þannig sneru 2% aftur í ríkissjóð nánast þegar í stað. Í öðru lagi myndi fólk auka við sig skattlagða vinnu og tekjur ríkissjóðs við það aukast. Rannsóknir Edwards Prescotts, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, sýna, að vinnuframlag og verðmætasköpun fer eftir því, hversu mikið hver viðbótarvinnustund er skattlögð. Í þriðja lagi myndu skattskil batna við lægri skatta.

Allt að vinna

Íslendingar hafa allt að vinna og engu að tapa með því að ráðast í stórfelldar skattalækkanir næstu árin. Við höfum ekki aðeins við að styðjast reynslu okkar sjálfra af vel heppnuðum skattalækkunum, heldur líka reynslu Bandaríkjamanna af svipuðum aðgerðum 1986 og Spánverja 1998, svo að tvö nýleg dæmi séu nefnd. Slíkar skattalækkanir myndu ekki hafa í för með sér minni tekjur ríkissjóðs og minni útgjöld til velferðarmála, heldur myndu skatttekjurnar líklega aukast. Kakan er ekki föst stærð. Úrslitum ræður, hvort bakaríið er vel eða illa rekið. Lítil sneið af stórri köku getur verið stærri en stór sneið af lítilli köku. En skattalækkanir eru ekki aðeins æskilegar, heldur líka nauðsynlegar í þeirri hörðu samkeppni um fólk og fjármagn, sem háð er nú um allan heim. Lífskjör á Íslandi verða að vera jafngóð eða betri en annars staðar, til þess að við höldum okkar hlut, en breytumst ekki í byggðasafn. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands efnir í samstarfi við ýmsa aðila til ráðstefnu í Þjóðminjasafninu fimmtudaginn 26. júlí klukkan fjögur, þar sem Edward Prescott og fleiri sérfræðingar í skattamálum ræða um skattalækkanir til kjarabóta, og verður fróðlegt að heyra, hvað þeir hafa þar að segja.

Viðskiptablaðið 26. júlí 2007 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband