Nú liggur á að lækka

Ingibjorg_Solrun_GisladottirVirkjunarframkvæmdum á hálendinu er að ljúka. Lækka verður leyfilegan hámarksafla úr þorski verulega eftir ráðum fiskifræðinga. Á næsta leiti virðist vera samdráttur. Nýbirt þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins er dökk. Hagfræðingar Alþýðusambands Íslands óttast atvinnuleysi. Hvað er til ráða? Þegar að kreppti um og eftir 1991, lækkaði ríkisstjórnin skatta í samráði við atvinnurekendur og launþegafélög. Aðstöðugjald var fellt niður og tekjuskattur fyrirtækja lækkaður í nokkrum áföngum úr 45%, fyrst í 33%, síðan í 30% og loks í 18%. Þetta bar stórkostlegan árangur. Atvinnulífið rétti úr kútnum.


Hagstætt skattaumhverfi fyrirtækja

Nú þarf ríkisstjórnin að gera svipað í samráði við atvinnurekendur og launþegafélög. Lækka ber skatta á fyrirtæki og einstaklinga í því skyni að örva atvinnulífið, koma í veg fyrir flutning fyrirtækja til útlanda, laða ný fyrirtæki til landsins og bæta kjör almennings. Einkum bráðliggur á að lækka skatta á fyrirtæki. Slík skattalækkun verður að hefjast um næstu áramót til að afstýra því atvinnuleysi, sem hagfræðingar Alþýðusambands Íslands vara við. Hún þarf að vera hressileg. Árin 1997-2001 lækkaði tekjuskattur á fyrirtæki um 12%, úr 30% í 18%. Þetta skilaði sér í stórauknum tekjum ríkisins. Þess vegna er okkur nú óhætt að lækka tekjuskatt á fyrirtæki um 8% á einu eða tveimur árum, úr 18% í 10%.

Í stjórnarsáttmálanum kveðast þau Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir stefna að hagstæðu skattaumhverfi. Ef stjórn þeirra lækkar tekjuskatt á fyrirtæki í 10%, þá verður skattaumhverfi á Íslandi eitt hið hagstæðasta í Evrópu. Írar hafa stórgrætt á því að laða til sín fyrirtæki með lágum sköttum. Vegna hins öra vaxtar írsks atvinnulífs er talað um „keltneska tígrisdýrið". En á Írlandi er tekjuskattur á fyrirtæki 12,5%. Í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu er hann víða 10%. Tekjuskattur á íslensk fyrirtæki á ekki að vera hærri. Ekki má gleyma því, sem Geir benti á opinberlega þegar árið 1979, að Ísland hefur ýmsa möguleika sem fjármálamiðstöð. Gætum við ekki orðið „norræna tígrisdýrið"?

Skattalækkanir besta kjarabótin

Verkalýðshreyfingin styður eflaust slíka skattalækkun í því skyni að örva atvinnulífið og afstýra atvinnuleysi, alveg eins og hún gerði upp úr 1991. En auðvitað hlýtur hún líka að krefjast skattalækkana á allan almenning. Einstakir fulltrúar launþega hafa sett fram athyglisverðar tillögur í því efni. Til dæmis hreyfði Bandalag starfsmanna ríkis og bæja á sínum tíma hugmynd um lágan, flatan tekjuskatt. Ef tekjuskattur á fyrirtæki er lækkaður niður í 10% og fjármagnstekjuskattur er áfram 10%, þá greiðir maður, sem lifir á arði af fyrirtæki sínu, í raun 19% af tekjum sínum í skatt (10% í tekjuskatt af hagnaði fyrirtækisins og 10% af þeim 90%, sem þá eru eftir í arð til hans). Það er réttlætismál, eins og Ingibjörg Sólrún hefur nefnt, að launþegar greiði ekki hærri skatt en slíkir fjármagnseigendur. 19% flatur skattur á alla launþega myndi ná þeim tilgangi, en síðan fengju hinir bágstöddustu vitanlega sérstakar bætur.

Hagfræðingar Alþýðusambands Íslands hafa reiknað út, að láglaunafólk yrði líklega betur sett með lágum skattleysismörkum og sérstöku lágu skattþrepi en með núverandi fyrirkomulagi. En hvers vegna ekki að láta slíkt skattþrep ná upp til allra tekjuhópa? Það myndi stuðla að nýjum fjárfestingum og minnka atvinnuleysi. Aðalatriðið er að opna leið fólks úr láglaunastörfum í hálaunastörf. Til þess verður að borga sig að hækka í tekjum. Ef til vill verða aðrar leiðir hér fyrir valinu, til dæmis að hafa há skattleysismörk (þau eru raunar óvíða hærri en á Íslandi), en lækka skattinn, sem menn greiða af tekjum umfram þau mörk, og mætti hugsa sér lækkun úr 36% eins og nú er niður í 30%. Það væri stórkostleg kjarabót. Reynslan sýnir líka, að ríkið tapar engum tekjum á þessu. Tekjuskattur ríkisins á einstaklinga var lækkaður úr 31% 1997 niður í 23% 2007, en skatttekjurnar jukust verulega.

Sömu hagsmunir

Þau Geir og Ingibjörg Sólrún hafa tekið höndum saman í ríkisstjórn. Nú þurfa þau að setjast niður með aðilum vinnumarkaðarins, fulltrúum atvinnurekenda og launþega, og gera samkomulag um það, hvernig örva má atvinnulífið, afstýra atvinnuleysi og bæta kjör venjulegs launafólks með stórfelldum skattalækkunum. Við höfum öll sömu hagsmuni. Við viljum vöxt í stað samdráttar. Við viljum ekki, að landið breytist í byggðasafn.

Fréttablaðið 24. júní 2007. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband