12.6.2007 | 20:24
Hvaða ráð myndi ég gefa Þingvallastjórninni?
Nýja ríkisstjórnin á að einbeita sér að þeim málum, sem hún er í meginatriðum sammála um eða njóta víðtæks stuðnings þjóðarinnar allrar, og hreyfa lítt við því, sem sundra kann, enda mætir tími og tilviljun okkur öllum, eins og segir í Prédikaranum.
Skattalækkun á fyrirtæki
Fyrsta málið, sem Þingvallastjórnin á að taka á, er að búa fyrirtækjum samkeppnishæft umhverfi. Mikilvæg skref voru tekin í þá átt síðustu sextán ár með því að fella niður aðstöðugjald og lækka tekjuskatt fyrirtækja úr 45% í 18%, sem skilaði samt stórauknum skatttekjum ríkisins. Við einkavæðingu viðskiptabanka og annarra fyrirtækja varð atvinnulífið miklu heilbrigðara. Jafnframt var útflutnings- og fjármálafyrirtækjum tryggður aðgangur að mikilvægasta markaði þeirra með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. En lífið stendur ekki í stað. Aðrar þjóðir hafa líka lækkað skatta á fyrirtæki. Nokkur fyrirtæki hafa nýlega flust til Hollands eða Noregs vegna þess, að þar er söluhagnaður af hlutabréfum ekki skattlagður. Víða annars staðar bjóðast fyrirtækjum góð skattakjör. Á Írlandi greiða fyrirtæki 12,5% tekjuskatt og í Eistlandi 10%. Í sumum svissneskum kantónum er skatturinn enn lægri. Frakkar og Þjóðverjar hafa hætt andófi við skattasamkeppni og taka nú þátt í henni.
Ef við ætlum að vera samkeppnishæf í Evrópu, þá verðum við í fyrsta lagi að fella niður skattlagningu söluhagnaðar af hlutabréfum og setja svipaðar reglur og Hollendingar og Norðmenn. Í öðru lagi eigum við að lækka tekjuskatt af fyrirtækjum úr 18% í 10%. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að slík skattalækkun myndi örva atvinnulífið til dáða, svo að skatttekjur af því myndu aukast, jafnframt því sem skattaskil myndu batna. Erlend fyrirtæki myndu síðan mörg sjá sér hag í að flytjast til Íslands, svo að skattstofninn myndi enn stækka. Eins og Geir H. Haarde, forsætisráðherra hinnar nýju stjórnar, benti á þegar árið 1979, hefur Ísland ýmsa kosti sem fjármálamiðstöð. Ör vöxtur íslenska fjármálageirans síðustu ár sýnir, að margt er mögulegt, sem menn höfðu aðeins látið sig dreyma um áður.
Skattalækkun á einstaklinga
Annað málið, sem Þingvallastjórnin þarf að taka á, er að tryggja sæmilegt jafnrétti fjármagnseigenda og launþega í skattlagningu tekna þeirra. Það er að vísu vanhugsað, sem stundum heyrist, að fjármagnseigendur greiði nú 10% skatt af tekjum sínum og launþegar 36%. Fjármagnseigendur, sem reka fyrirtæki og taka arð út úr því, greiða í raun af honum 26,2% (18% tekjuskatt fyrirtækisins og síðan 10% af arðinum, sem þá er eftir, eða samtals 18+8,2=26,2%). Launþegar greiða ekki heldur 36% skatt, því að sá er jaðarskatturinn, ekki meðaltal skatthlutfalls þeirra. Til dæmis greiðir maður með 90 þúsund króna mánaðarlaun nú 0% í tekjuskatt, þar sem skattleysismörk eru 90 þúsund á mánuði. Maður með 180 þúsund króna mánaðarlaun greiðir 0% af fyrstu 90 þúsund krónunum og 36% af afganginum, svo að hann greiðir í raun 18% tekjuskatt. Það er ekki fyrr en komið er í nær 400 þúsund króna mánaðartekjur, sem launþeginn greiðir svipað hlutfall og fjármagnseigandinn.
Setjum svo, að tekjuskattur fyrirtækja verði lækkaður í 10%, eins og eðlilegt er. Þá greiðir fjármagnseigandi í raun 19% tekjuskatt (10% tekjuskatt fyrirtækisins og síðan 10% af arðinum, sem þá er eftir, eða samtals 10+9=19%). Til að skattgreiðslur venjulegs launþega yrðu sambærilegar, þyrfti annaðhvort að taka upp 19% flatan tekjuskatt á atvinnutekjur eða lækka núverandi tekjuskatt með háum skattleysismörkum niður í um 27%. Þá myndu launþegar með allt að 400 þúsund króna mánaðartekjur greiða lægra hlutfall en fjármagnseigendur, en launþegar yfir þessum tekjum greiða hærra hlutfall. Eðlilegast væri að velja milli þessara tveggja leiða í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Áhrifamikil launþegafélög hafa sett fram hugmyndir um flatan skatt, en önnur launþegafélög vilja hækka skattleysismörk (en þá yrði tekjuskattur einstaklinga ekki lækkaður jafnmikið og hér er gert ráð fyrir).
Rausnarleg velferðaraðstoð
Velmegun og velferð haldast í hendur. Þegar atvinnulífið er sligað með þungum sköttum eins og í Svíþjóð, hættir það að vaxa nægilega ört til þess, að einstaklingar fái vinnu og ríkið tekjur. Gæsin verpir þá ekki lengur gulleggjunum. Í ljós hefur komið, að á Norðurlöndum er velferðaraðstoð hér á Íslandi í mörgu rausnarlegust, þótt meðaltöl séu stundum lág. Ástæðan er sú, að leitast hefur hér verið við að beina velferðaraðstoðinni til þeirra, sem þurfa á henni að halda, en ekki að færa fé fyrst frá sjálfbjarga mönnum og síðan aftur til þeirra. Til dæmis eru barnabætur til láglaunafólks hærri hér en á Norðurlöndum, en barnabætur til allra að meðaltali lægri. Skýringin er sú, að barnabæturnar eru hér betur tekjutengdar, eins og eðlilegt er: Ríkt fólk á ekki að þiggja barnabætur. Svipað er að segja um lífeyristekjur. Á Norðurlöndum eru þær að meðaltali hæstar hér á hvern lífeyrisþega. En greiðslur til lífeyrismála á hvern íbúa á lífeyrisaldri eru hins vegar að meðaltali næstlægstar hér. Skýringin er sú, að fleiri vinna hér: Af 31 þúsund manns á lífeyrisaldri taka aðeins 26 þúsund manns lífeyris. Enn fremur eru greiðslur til margvíslegrar þjónustu við aldraða að meðaltali hæstar hér.
Við eigum að halda áfram á sömu braut. Velferðaraðstoðin á ekki að vera millifærsla frá sjálfbjarga fólki til sjálfbjarga fólks, þar sem stórfé hverfur á leiðinni. Hún á að vera millifærsla frá hinum sjálfbjarga til hinna ósjálfbjarga. Til dæmis er eðlilegt, eftir því sem lífeyrissjóðir vaxa og verða aflögufærari, að greiðslur úr þeim taki við af lífeyrisgreiðslum úr almannatryggingum. Enginn tilgangur er í því, að ríkið greiði auðmönnum lífeyri eða því miðstéttarfólki, sem nýtur væns lífeyris úr eigin sjóðum. Hitt er gáfulegra að hækka greiðslurnar úr almannatryggingum til þeirra, sem eru á lífeyrisaldri og njóta hvergi annarra tekna. Velferðarríkið átti rót sína í viðleitni til að tryggja almennt afkomuöryggi. Það var hugsað fyrir fátæka, sjúka, aldraða og atvinnulausa. Með vaxandi velmegun minnkar þörfin fyrir slíka velferðaraðstoð. Velferðarríkið verður að vísu aldrei óþarft, en eðlilegt er, að það minnki með hinni minnkandi þörf. Ég sé til dæmis enga ástæðu til þess, að fólk, sem býr við sæmileg efni, greiði ekki sjálft fyrir skólagöngu sína og heilsugæslu. Tekjutenging bóta og gjaldtaka af sjálfbjarga fólki auðveldar hvort tveggja að beina velferðaraðstoðinni til þeirra einna, sem þurfa á henni að halda, svo að hún geti þar verið rausnarleg.
Öryggi þjóðarinnar
Við lifum í viðsjálli veröld, þótt kalda stríðinu sé vissulega lokið. En þegar Bandaríkjaher hvarf af landi brott sumarið 2006, varð landið varnarlaust. Það getur ekki verið varanlegt ástand. Nýjar hættur blasa við. Glæpafélög Austur-Evrópu teygja starfsemi sína til Íslands. Serkneska hryðjuverkahópa kann að bera niður hér eins og annars staðar. Hverjum datt í hug 1626, að árið eftir birtust hér sjóræningjar? Erfitt er einnig að átta sig á framtíðarþróun Rússaveldis. Við hljótum að tryggja öryggi okkar með samningum við vinveittar grannþjóðir, þar á meðal Bandaríkjamenn og Evrópuþjóðir. Jafnframt hljótum við að herða sjálf margvíslegt eftirlit með aðkomumönnum og koma hér upp einhvers konar varaliði, sem kann að taka á móti vopnuðu illþýði, eins og meiri hluti þjóðarinnar er sammála um samkvæmt skoðanakönnunum. Þetta er vandasamt verkefni, því að öllu valdi fylgir auðvitað hætta á misnotkun þess. En eins og Bjarni Benediktsson sagði eitt sinn, er okkar gamla vernd, fjarlægðin, úr sögunni.
Mikið tækifæri er um leið fólgið í því, að fjarlægðin er úr sögunni. Ísland þarf ekki að vera áhrifalaust smáríki í Evrópusambandinu. Þótt það sé í jaðri Evrópu, liggur það á miðju Norður-Atlantshafi. Geir H. Haarde hefur rétt fyrir sér um, að hér eru um margt ákjósanleg skilyrði til að reka alþjóðlega fjármálaþjónustu. Eitt fordæmi í því efni getur verið Sviss, sem hefur ekki aðeins verið griðastaður flóttamanna í blóðugum stríðum Norðurálfunnar, heldur líka geymslustaður fjár. Getur Ísland ekki orðið Sviss Norðursins? Auk þess sem við hljótum að nýta áfram náttúrugæði okkar, fagurt land, gjöfular orkulindir og frjósama fiskistofna, getum við með lágum sköttum og traustum lögum laðað til okkar fyrirtæki, sem telja af ýmsum ástæðum þröngt um sig í Evrópusambandinu, einkum alþjóðleg fjármálafyrirtæki. Ógæfa annarrar eyþjóðar í Norður-Atlantshafi, Nýfundnalands, var, að hún gekk í ríkjasamband við Kanada og hætti að treysta á sjálfa sig. Ísland á að rækta áfram vináttu og viðskipti við Bandaríkin og Evrópuríkin, ekki síst Norðurlönd, en ekki ganga neinum á hönd.
Þjóðmál, sumarhefti 2007.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.6.2007 kl. 08:41 | Facebook