8.6.2007 | 18:43
Höldum í frjálst framsal
Kvótakerfið í sjávarútvegi snýst ekki um ástand fiskistofna. Það er hlutverk fiskifræðinga að rannsaka slíkt ástand. Ég skal ekkert um það segja, hversu nákvæmar niðurstöður þeirra eru, en hitt veit ég, að okkur býðst ekkert betra. Ef til vill hafa veiðar ekki úrslitaáhrif á stofna. En við verðum að trúa því, að þær hafi einhver áhrif, enda stækkuðu stofnarnir, þegar lítið var veitt í seinni heimsstyrjöld. Líffræðileg ofveiði er til. Við verðum að treysta fiskifræðingum um það, hver hún sé. Ef þeir segja okkur, að við verðum að minnka veiðar úr einstökum stofnum, þá hljótum við að fara eftir því.
Kvótakerfi til að hagræða
Kvótakerfið í sjávarútvegi snýst um annað. Þegar aðgangur er ótakmarkaður að takmarkaðri auðlind, eykst sóknin í hana, þangað til allur gróði af henni hefur horfið í aukinn kostnað. Þetta er lögmál, sem ekki er deilt um í alvöru. Staðfestingu þess getur að líta um allan heim. Við Íslendingar kynntumst þessu vel fyrir 1980. Þá óx flotinn miklu hraðar en aflinn. Við sóuðum miklu fé í of mörg skip, sem voru að eltast við sífellt minni síldar- og þorskstofna. Einfaldast er að sjá þetta fyrir sér með því að segja, að sextán bátar hafi veitt fisk, þegar aðeins þurfti átta.
Verkefnið þá var að fækka bátunum úr sextán í átta. Tvær leiðir voru til. Sumir vildu, að fækkunin yrði framkvæmd með því, að ríkið byði upp aflaheimildir, sem verðlagðar væru svo hátt, að aðeins átta betur reknu bátarnir yrðu eftir á miðunum. Hinir átta bátarnir, sem verr væru reknir, gætu ekki greitt uppsett verð og yrðu að hætta veiðum. Þannig fengist hagræðingin á einum degi. Aðrir, þar á meðal við Ragnar Árnason prófessor og sjávarútvegsráðherrarnir Halldór Ásgrímsson og Þorsteinn Pálsson, lögðu til, að allir sextán bátarnir fengju aflaheimildir, sem nægðu átta bátum til hagkvæms reksturs. Þeir mættu síðan versla með þessar aflaheimildir. Þannig myndi bátunum smám saman fækka úr sextán í átta. Hagræðingin yrði hæg og sársaukalítil. Þessi leið var sem betur fer valin.
Óréttmæt gagnrýni
Það er mikilvægt að skilja, að einn tilgangur kvótakerfisins var einmitt að fækka bátunum. Þeir voru of margir. Þess vegna er það kostur á kerfinu, ekki galli, þegar aflaheimildir eru sameinaðar og færðar frá tveimur bátum á einn. Samt er jafnan rekið upp ramakvein, þegar það gerist. Frjálst framsal aflaheimilda gegnir því hlutverki að flytja heimildirnar þangað, sem þær eru best nýttar.
Sjónvarpið flutti nýlega margar fréttir af Flateyri, en þaðan hafa aflaheimildir flust. Verkafólkið, sem sást í fréttunum, var að vísu nær allt útlent. En hvað skal gera? Halda með ríkisstyrkjum uppi rekstri, þar sem hann er óhagkvæmur? Ef útgerð borgar sig á Flateyri, þá hljóta heimamenn að geta keypt þangað aflaheimildir. Ef útgerð er ekki hagkvæm þar, þá verða Flateyringar að sæta sömu reglu og Reykvíkingar og svipast um eftir öðrum tækifærum. Í Reykjavík hætta fyrirtæki rekstri, án þess að Sjónvarpið flytji um það sérstakar fréttir. Starfsmenn slíkra fyrirtækja leita sér að annarri vinnu og finna, því að ekkert atvinnuleysi er á Íslandi ólíkt því, sem gerist í Evrópusambandinu.
Gagnrýni Morgunblaðsins á eigendur Brims, þá Guðmund og Hjálmar Kristjánsson, fyrir að vilja kaupa Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum er einnig óréttmæt. Þeir höfðu fullt frelsi til að gera sitt tilboð. En að sjálfsögðu höfðu hagsmunaaðilar í Vestmannaeyjum líka fullt leyfi til að selja ekki hlutabréf sín eða kaupa.
Enga styrkjastefnu
Við verðum að treysta ráðum fiskifræðinga, um leið og við hljótum að halda fast við frjálst framsal aflaheimilda. Við megum ekki taka upp styrkjastefnu í sjávarútvegi, enda er þá hætt við, að Ísland allt verði að einhvers konar byggðasafni, sem duglegt fólk flyst frá og heimsækir aðeins á sumrin í því skyni að horfa vorkunnsamlega á afturúrsiglarana og óska sjálfu sér til hamingju í huganum með að hafa sloppið út. Lífskjör verða að vera hér jafngóð eða betri en í grannlöndunum, og það gerist ekki, nema við hagræðum sífellt í rekstri. Kvótakerfið í sjávarútvegi er einn þátturinn í því.
Fréttablaðið 8. júní 2007.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:46 | Facebook