14.9.2025 | 14:19
Athugasemd við pistil Gandra
Guðmundur Andri birti í dag, 14. september 2025, ágætan pistil um málfrelsi á Facebook. Þar sagði hann:
Ég er sammála þér um margt í þessum pistli. Stundum á sannleikurinn ekki við. Ibsen samdi Villiöndina um, hversu grimmdarlegt það getur verið að segja sannleikann. Og orðskviðurinn er: Gakktu fyrir hvers manns dyr og segðu sannleikann, og þú munt öllum hvimleiður verða. En ég verð að gera smáaathugasemd við eina setningu. Þú segir: Að tjá hug sinn eins og maður telur best við hæfi án þess að eiga á hættu ofsóknir opinberra aðila. Það eru ekki aðeins opinberir aðilar, sem ofsækja fólk fyrir að láta í ljós skoðanir. Um daginn réðust ofstopamenn inn í Þjóðminjasafnið og komu í veg fyrir málstofu um lífeyrismál vegna þjóðernis framsögumanns. Og síðan sætti alþingismaður slíkum hótunum fyrir að fara með þau sjálfsögðu sannindi, að kynin væru tvö, að sérsveit lögreglunnar varð að vernda heimili hans. Og ofsóknir geta verið útskúfun ekki síður en árásir, og sumu fólki er einmitt útskúfun óbærilegri en árásir. Skrifaðu! Við lesum það ekki! sögðu kommúnistarnir við Benjamín H. J. Eiríksson, eftir að hann gekk af trúnni. Jón Óskar segir í bókum sínum margt um ofsóknir, sem borgaralegir rithöfundar máttu þola, á meðan kommúnistar (í krafti fjár frá Moskvu, sem gerði þeim kleift að eignast fjögur stórhýsi í Reykjavík) voru sem voldugastir í íslensku menningarlífi. Ekki þarf síðan að minna á dæmi Kristmanns, þótt auðvitað hafi hann tekið þetta of nærri sér. Við Kristmann og Matthías Johannessen sátum einu sinni saman í kaffi og skiptumst á sögum um ofsóknir á hendur okkur, þótt fárr sé fjær mér en hjúpur fórnarlambsins. Sá hjúpur er alltaf hálfhlægilegur, sbr. bækur Jóhannesar Birkilands og Ólínu Þorvaldsdóttur Kjerúlfs. Ég kippti mér ekki upp við það, að ég sætti útskúfun í Háskólanum. Þegar deildarforsetinn okkar (Baldur Þórhallsson) hélt til dæmis boð heima hjá sér á kostnað Háskólans fyrir alla deildarmenn, bauð hann mér ekki, þótt ég væri fullgildur prófessor í deildinni! Aðspurður sagði hann, að enginn annar hefði mætt, hefði mér verið boðið! En ég veit ekki til þess, að hann hafi endurgreitt kostnaðinn við boðið, þótt það breyttist auðvitað í einkaboð við þetta, ekki opinbert boð. Þetta var auðvitað smávægilegt mál og varla orð á gerandi, en sýndi þó, að það kostar að hafa aðrar skoðanir en valdið hefur (og valdið þarna var í höndum Baldurs og félaga).
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:26 | Facebook