Athugasemd við pistil Gandra

Guðmundur Andri birti í dag, 14. september 2025, ágætan pistil um málfrelsi á Facebook. Þar sagði hann:

 

Hér á landi ríkir málfrelsi en þar með er ekki sagt að við þurfum að tala saman eins og við séum með framheilaskaða.
Einar Ben. orðaði þetta: „Þel getur snúist við atorð eitt / aðgát skal höfð í nærveru sálar.“ Svona var hann nú mikill þöggunarsinni. (Reyndar átti Einar til að vera mjög skömmóttur, úthúðaði mönnum, ekki síst skáldkollegum, líkti til dæmis einum við „ýlustrá í eyðimörk“). En sem sé: aðgát er eftirsóknarverð dyggð. Kurteisi. Tillitssemi. Við hittum gamlan kunningja og segjum ekki „þú ert andfúll“ heldur reynum að leiða viðkomandi fyrir sjónir að kannski ætti hann að bursta tennurnar. Þetta er sjálfsritskoðun, eins konar þöggun, tillitssemi sem ekki má rugla saman við hið mjög ofnotaða hugtak „meðvirkni“. Þetta er lærð félagshegðun sem samfélag okkar byggist að stórum hluta á.
Við framseljum hluta af fullveldi okkar sem einstaklingar í hvert sinn sem önnur manneskja verður á vegi okkar. Ótal hugsanir skjótast fram og aftur í einni bendu í hausnum á okkur hverju sinni og við veljum alltaf úr þessum urmul það sem við segjum, og við það val fer fram örsnöggt mat á því sem er við hæfi og ekki við hæfi. Um leið og við nálgumst aðra manneskju fáum við líka hlutdeild í hennar svæði og finnum, á örskotsstundu, svæði þar sem við getum mæst og átt í samskiptum á jafnréttisgrundvelli. Segi hún við okkur: „Mikið ertu í ljótum buxum, andfúli maður“ þá hljótum við að fyrtast við og svara í sömu mynt, annaðhvort með skætingi eða kvörtun. Við erum farin að takast á, ekki að deila hluta af fullveldi okkar með hvort öðru heldur reynir hvort um sig að taka yfir vettvanginn. Það endar aldrei vel. Þöggunin, sjálfsritskoðunin er alltaf vænlegri, bæði til að geta átt í bærilegum samskiptum og líka komið einhverju í verk sé ætlunin að vinna saman - og öll sköpun verður til í einhvers konar samvinnu. Þannig fúnkerar samfélag okkar, með gagnkvæmri virðingu ólíkra aðila. Þurfi einhver á því að halda að upphefja sig á kostnað annarra þá endar það alltaf illa. Það er ömurlegt fyrir þann sem lítið er gert úr og hittir sem búmerang þann sem svívirðir. Orðum sínum er hver líkastur.
Hér á landi ríkir málfrelsi og er meðal mikilvægustu réttinda okkar í nútímasamfélagi. Að tjá hug sinn eins og maður telur best við hæfi án þess að eiga á hættu ofsóknir opinberra aðila. Þar með er ekki sagt að maður þurfi að nota þetta málfrelsi eins og ofbeldistæki; til að smána, svívirða eða særa fólk.
 
Ég gerði eftirfarandi athugasemd:

 

Ég er sammála þér um margt í þessum pistli. Stundum á sannleikurinn ekki við. Ibsen samdi Villiöndina um, hversu grimmdarlegt það getur verið að segja sannleikann. Og orðskviðurinn er: Gakktu fyrir hvers manns dyr og segðu sannleikann, og þú munt öllum hvimleiður verða. En ég verð að gera smáaathugasemd við eina setningu. Þú segir: „Að tjá hug sinn eins og maður telur best við hæfi án þess að eiga á hættu ofsóknir opinberra aðila.“ Það eru ekki aðeins opinberir aðilar, sem ofsækja fólk fyrir að láta í ljós skoðanir. Um daginn réðust ofstopamenn inn í Þjóðminjasafnið og komu í veg fyrir málstofu um lífeyrismál vegna þjóðernis framsögumanns. Og síðan sætti alþingismaður slíkum hótunum fyrir að fara með þau sjálfsögðu sannindi, að kynin væru tvö, að sérsveit lögreglunnar varð að vernda heimili hans. Og ofsóknir geta verið útskúfun ekki síður en árásir, og sumu fólki er einmitt útskúfun óbærilegri en árásir. „Skrifaðu! Við lesum það ekki!“ sögðu kommúnistarnir við Benjamín H. J. Eiríksson, eftir að hann gekk af trúnni. Jón Óskar segir í bókum sínum margt um ofsóknir, sem borgaralegir rithöfundar máttu þola, á meðan kommúnistar (í krafti fjár frá Moskvu, sem gerði þeim kleift að eignast fjögur stórhýsi í Reykjavík) voru sem voldugastir í íslensku menningarlífi. Ekki þarf síðan að minna á dæmi Kristmanns, þótt auðvitað hafi hann tekið þetta of nærri sér. Við Kristmann og Matthías Johannessen sátum einu sinni saman í kaffi og skiptumst á sögum um ofsóknir á hendur okkur, þótt fárr sé fjær mér en hjúpur fórnarlambsins. Sá hjúpur er alltaf hálfhlægilegur, sbr. bækur Jóhannesar Birkilands og Ólínu Þorvaldsdóttur Kjerúlfs. Ég kippti mér ekki upp við það, að ég sætti útskúfun í Háskólanum. Þegar deildarforsetinn okkar (Baldur Þórhallsson) hélt til dæmis boð heima hjá sér á kostnað Háskólans fyrir alla deildarmenn, bauð hann mér ekki, þótt ég væri fullgildur prófessor í deildinni! Aðspurður sagði hann, að enginn annar hefði mætt, hefði mér verið boðið! En ég veit ekki til þess, að hann hafi endurgreitt kostnaðinn við boðið, þótt það breyttist auðvitað í einkaboð við þetta, ekki opinbert boð. Þetta var auðvitað smávægilegt mál og varla orð á gerandi, en sýndi þó, að það kostar að hafa aðrar skoðanir en valdið hefur (og valdið þarna var í höndum Baldurs og félaga).


« Síðasta færsla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband