6.9.2025 | 01:38
Hvað gerir lögreglustjórinn í Reykjavík?
Silja Bára Ómarsdóttir háskólarektor sagði í viðtali við Ríkisútvarpið 1. september 2025, að hinn 6. ágúst hefði rekist á rétturinn til að mótmæla og rétturinn til að halda fundi. Þá ruddust nokkrir starfsmenn Háskólans með Ingólf Gíslason aðjúnkt í fararbroddi inn á fund um gervigreind og lífeyrismál og gerðu hróp að fundarstjóra og fyrirlesara, svo að ekkert heyrðist í þeim, og eftir nokkrar árangurslausar tilraunir þeirra til að tala varð eftir tuttugu mínútur að slíta fundi.
Rektor hefur bersýnilega rangt fyrir sér. Þessir óeirðaseggir voru ekki að mótmæla, eins og þeir hafa fullan rétt á. Þeir voru að koma í veg fyrir, að fólk fengi að halda sinn fund í friði og tala þar. Þessir ruddar brutu siðareglur Háskólans, eins og ég benti á í Morgunblaðinu 20. ágúst. En þeir brutu líka landslög, eins og prófessor Davíð Þór Björgvinsson hefur bent á. Í 73. grein stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um tjáningarfrelsi og í 74. grein um fundafrelsi. Í mannréttindasáttmála Evrópu, 10. og 11. grein, er einnig kveðið á um málfrelsi og fundafrelsi.
Óeirðaseggirnir brutu enn fremur 122. grein almennra hegningarlaga, en þar segir, að hver sá, sem hindrar, að löglegur mannfundur sé haldinn, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári, en séu sakir miklar, til dæmis vegna ógnana, fangelsi allt að tveimur árum. Enn fremur segir í þessari grein, að hver sá, sem raski fundafriði á lögboðnum samkomum um opinber málefni, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum.
Það er hlutverk lögreglustjórans í Reykjavík að rannsaka og eftir atvikum ákæra í þessu máli. Hann hlýtur að hefja rannsókn málsins hið bráðasta.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. september 2025.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook