6.9.2025 | 01:31
Fyrir 86 árum í Moskvu og Reykjavík
Í dag, 23. ágúst, er evrópskur minningardagur um fórnarlömb alræðisstefnunnar, nasisma og kommúnisma. Þennan dag árið 1939 gerðu Hitler og Stalín griðasáttmála í Moskvu og skiptu mið- og austurhluta Evrópu á milli sín. Stalín hlaut Finnland, Eystrasaltsríkin þrjú, austurhluta Póllands og hluta Rúmeníu, en Hitler vesturhluta Póllands. Hitler réðst á Pólland að vestan 1. september, og þá sögðu Bretar og Frakkar Nasista-Þýskalandi stríð á hendur. Þessi ríki sögðu hins vegar ekki Ráðstjórnarríkjunum stríð á hendur, þegar Stalín réðst á Pólland að austan 17. september. Herir alræðisríkjanna tveggja mættust í Brest-Lítovsk og héldu saman hersýningu 22. september, en upptökur eru til af henni á Youtube.
Griðasáttmálinn olli uppnámi á Íslandi. Kommúnistinn Þórbergur Þórðarson hitti dr. Guðmund Finnbogason landsbókavörð á Hótel Borg 13. september og sagði: Ef Rússar fara í stríð með nasistum, þá hengi ég mig. Þetta gerði Stalín þó fjórum dögum síðar. Þórbergur reyndi að afsaka sig með því, að Hitler og Stalín væru ekki saman í stríði, þótt þeir hefðu í sameiningu lagt undir sig Pólland. En þegar Hitler sá, hversu grátt her Stalíns var leikinn í Vetrarstríðinu við Finna 19391940, ákvað hann að ráðast við fyrsta tækifæri á Ráðstjórnarríkin, leggja þau undir sig í leiftursókn og neyða með því Breta til friðarsamninga. Honum tókst það ekki, en enginn hefur tölu á því, hversu mörg fórnarlömb alræðisstefnu Hitlers og Stalíns voru á tuttugustu öld. Og nú ógnar öfgaíslam Vesturlöndum á sama hátt og nasismi og kommúnismi áður.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. ágúst 2025.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:12 | Facebook