6.9.2025 | 01:29
Gyðingaandúð og gyðingahatur
Ísraelskur fræðimaður á sviði gervigreindar og lífeyrisskuldbindinga átti að flytja erindi í Háskóla Íslands 6. ágúst 2025 um hið forvitnilega fræðasvið sitt. En nokkrir starfsmenn Háskólans undir forystu Ingólfs Gíslasonar aðjúnkts, sem bar aðgöngukort sitt að Háskólanum utan á sér, ruddust inn í fyrirlestrarsalinn í Þjóðminjasafni og öskruðu fyrirlesarann og fundarstjórann niður, svo að þeir gátu ekki talað, og gekk á því í tuttugu mínútur, uns fundi varð að slíta. Þessir óboðnu gestir voru ekki að mótmæla stríðinu á Gasa-svæðinu, eins og þeir hafa fullan rétt á að gera, heldur að svipta fyrirlesarann málfrelsi og takmarka rannsóknafrelsi í Háskólanum.
Þetta gefur hins vegar tilefni til að gera greinarmun á gyðingaandúð og gyðingahatri, sem eru hvort tveggja þýðingar á enska orðinu anti-semitism. Gyðingaandúð er, þegar lagður er annar mælikvarði á gyðinga en aðra. Ef tíu óbreyttir borgarar falla í stríði í Súdan og enginn segir neitt, en ef tíu óbreyttir borgarar falla í stríði í Ísrael og því er ákaft mótmælt, þá eru mótmælendurnir sekir um gyðingaandúð, valkvæða vandlætingu. Þeim er sama um voðaverk í Súdan (eða Tíbet), en nota tækifærið til að gagnrýna gyðinga í Ísrael.
Gyðingahatur er hins vegar, þegar menn vilja beinlínis útrýma Ísraelsríki. Þeir taka þá ekkert tillit til þess, að Ísrael var hið forna heimkynni gyðinga og að árin fyrir 1945 skiptust ríki heims í þau, sem vildu losna við gyðinga, og hin, sem vildu ekki taka við þeim. Gyðingar áttu því ekki annars kost en stofna eigið ríki. Það var ekki aðeins gyðingaandúð, heldur líka gyðingahatur, sem rak leiðtoga óeirðaseggjanna áfram, því að Ingólfur Gíslason skrifar á Facebook síðu sinni, að Ísrael eigi að fara til helvítis.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. ágúst 2025.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook