Uppgjör Norðmanna við hernámið

Eftir að þýskir nasistar hernámu Noreg 9. apríl 1940, gengu þeir hart fram með aðstoð norskra nasista og meðreiðarsveina þeirra. Í stríðslok var gert upp við þetta fólk, sem talið var hafa svikið föðurlandið. Norðmenn reyndu þó eftir megni að halda sig innan laganna. Til dæmis áttu sér ekki stað neinar fjöldaaftökur án dóms og laga eins og í Frakklandi.
Margt má þó gagnrýna frá lagalegu sjónarmiði í uppgjöri Norðmanna. Til dæmis var það gert refsivert í tilskipun frá norsku útlagastjórninni í miðju stríði að vera flokksbundinn í norska Nasistaflokknum, sem hafði þó verið löglegur stjórnmálaflokkur fyrir stríð. Þetta stríddi gegn skýlausu banni í norsku stjórnarskránni gegn afturvirkum lögum. Fjórir af þrettán hæstaréttardómurum töldu því ekki rétt að beita þessu ákvæði, en aðeins einn virtur lögfræðingur, prófessor emeritus Jon Skeie, andmælti því líka. Allir aðrir lögspekingar þögðu eða samþykktu notkun ákvæðisins með semingi.
Einnig var kveðið á um það í tilskipun frá útlagastjórninni, að félagar í norska Nasistaflokknum væru sameiginlega ábyrgir fyrir öllu því tjóni, sem hernámið hefði valdið Noregi. Þetta stríddi gegn ákvæði í norsku stjórnarskránni um, að ekki mætti svipta menn jörðum eða heimilum, en var auk þess lagalega hæpið, því að engin tengsl voru venjulega milli aðgerða einstaklinga og hugsanlegs tjóns af völdum hernámsins. Þetta ákvæði var þó smám saman mildað.
Í þriðja lagi var dauðarefsing tekin upp aftur á friðartímum, en hún hafði aðeins verið leyfileg á stríðstímum samkvæmt norskum lögum. Sjálfum finnst mér það ekki eins alvarlegt brot á reglum réttarríkisins og hin tvö atriðin, en þetta bar þess þó merki, að aðalatriðið var sefa reiði almennings. Norska uppgjörið, klætt í skikkju laganna, var sú virðing, sem reiðin sýndi lögunum, svo að vikið sé við orðum Wildes.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. ágúst 2025.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband