Cassel á Íslandi

Svíinn Gustav Cassel (1866–1945) var einn kunnasti hagfræðingur heims á þriðja áratug tuttugustu aldar. Hann skrifaði fræðilegar ritgerðir, aðallega um peningamál og alþjóðaviðskipti, en líka alþýðulegar greinar til varnar atvinnufrelsi, enda mjög ritfær. Jón Þorláksson, fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, studdist mjög við rannsóknir Cassels á peningamálum, þegar hann skrifaði Lággengið árið 1924, og ræður og greinar Jóns um stjórnmálahugmyndir voru einnig samdar undir greinilegum áhrifum Cassels. 

Til dæmis var ræða Jóns, Milli fátæktar og bjargálna, sem hann flutti á fundi Heimdallar 21. mars 1929 og aftur á landsfundi Íhaldsflokksins 6. apríl, að miklu leyti endursögn á snjallri ritgerð eftir Cassel, Fjármagn og framfarir (Kapital och framåtskridande), sem kom fyrst út árið 1920 og var endurprentuð í bók árið 1929. Birtist ritgerð Cassels í íslenskri þýðingu Magnúsar Jónssonar, prófessors og þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í þremur hlutum í Stefni 1930, en Guðmundur Hannesson prófessor vakti athygli á bók Cassels í Morgunblaðinu í janúar 1930. Höfðu dönsku skattgreiðendasamtökin látið þýða hana og prenta í 30 þúsund eintökum. 

Cassel var líka ráðunautur minnihlutastjórnar Framsóknarflokksins í peningamálum árið 1929 og lagði þá eindregið til, að ekki yrði reynt að hækka gengi krónunnar (skráð í gulli) upp i það, sem það var fyrir stríð (eins og Jón Þorláksson vildi gera), heldur festa það á núverandi verði.

Ýmsar greinar birtust eftir Cassel næstu ár, í Stefni 1930 og 1932, Lesbók Morgunblaðsins 1931, Vísi 1936, 1937 og 1939, Frjálsri verslun 1944 og Bankablaðinu 1944. Einnig var iðulega vikið að Cassel í blöðum. Má segja, að hann hafi verið helsti fræðilegi talsmaður frjálshyggju á Íslandi, uns Ólafur Björnsson hóf upp sína raust, og væri vel þess virði að endurprenta greinar hans á bók, því að þær eldast vel. 

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. ágúst 2025.)


« Síðasta færsla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband