31.7.2025 | 15:01
Cssel og heimskreppan
Oftast er rætt um þrjár skýringar á heimskreppunni 1929-1933. Ein er kennd við austurríska skólann í hagfræði, að niðursveifla sé jafnan afleiðing fyrri uppsveiflu, sem orðið hafi vegna útlánaþenslu og rangra fjárfestinga. Niðursveiflan sé því aðeins nauðsynleg leiðrétting uppsveiflunnar, og ríkið eigi að láta markaðinn um úrlausnir.
Keynes lávarður setti fram aðra skýringu, að atvinnuleysi gæti verið jafnvægisástand frekar en skammtímafyrirbæri, því að sparnaður skilaði sér ekki allur í fjárfestingar, svo að ríkið yrði með verulegum opinberum framkvæmdum að tryggja fulla atvinnu.
Milton Friedman kom orðum að þriðju skýringunni, að seðlabanki Bandaríkjanna hefði horft upp á það aðgerðalaus, að peningamagn í umferð minnkaði þar í landi um þriðjung árin 1929-1933, en með því hefði hagsveifla niður á við breyst í heimskreppu. Seðlabankar ættu að bæta úr skyndilegum lausafjárskorti með seðlaprentun og kaupum á bankabréfum (eins og gert var í lausafjárkreppunni 2007-2009).
Fæstir vita, að hinn kunni sænski hagfræðingur Gustav Cassel (1866-1945) setti fram fjórðu skýringuna: Kreppuna mætti rekja til þess, að seðlabankar hefðu eftir stríð snúið aftur á gullfót, en safnað til sín gulli og geymt í sjóði, og við það hefði peningamagn í umferð dregist saman og valdið verðhjöðnun og að lokum heimskreppu. Engin mótsögn er milli skýringa Cassels og Friedmans, þar sem Cassel lýsti því aðallega, hvað hleypti kreppunni af stað árin 1929-1930, en Friedman hinu, hvernig hún snarversnaði með gjaldþrotahrinu bandarískra banka og minnkun peningamagns í umferð af þeim sökum árin 1930-1933.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. júlí 2025.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook