31.7.2025 | 14:57
Röng hagfræði
Danski hagfræðingurinn Jens Warming, sem fyrstur greindi ofveiðivandann í sjávarútvegi, var hallur undir georgisma, kröfuna um, að ríkið gerði alla auðlindarentu upptæka, því að eigendur auðlinda sköpuðu hana ekki, heldur náttúran og almenningur í sameiningu. Hann var þó nógu mikill hagfræðingur til að sjá, að skárra væri að leyfa rentunni að renna til einstaklinga en að hún færi í súginn í of miklum kostnaði. En furðulegt er að sjá nokkra íslenska hagfræðinga halda uppi merki georgismans í sjávarútvegi. Hagfræði þeirra er af mörgum ástæðum röng.
1. Þegar miðunum var lokað var valið um að úthluta aflaheimildum eftir aflareynslu eða bjóða þær upp. Fyrri leiðin var Pareto-hagkvæm, enginn skaðaðist á henni, og sumir græddu. Uppboð hefði hins vegar gert skip, veiðarfæri og veiðikunnáttu þeirra, sem hefðu orðið frá að hverfa í uppboðinu, verðlaust í einni svipan.
2. Enginn réttur var tekinn af öðrum með því að loka miðunum og úthluta aflaheimildum eftir aflareynslu annar en rétturinn til að gera út á núlli, en Warming sýndi einmitt fram á, að við opinn aðgang hlyti sókn að aukast upp að því marki, að öll auðlindarenta færi í súginn.
3. Það er álitamál, hvort rentukenning Ricardos standist, eins og Frank H. Knight benti á. Breytilegt er, hversu mikið auðlind getur gefið af sér. Eigendur eiga sinn þátt í að skapa rentuna.
4. Ef útgerðarmenn geta gengið að því vísu, að þeir eigi aflaheimildirnar, þá hafa þeir hag af því, að auðlindin, fiskistofnarnir, skili hámarksarði til langs tíma litið. Ef þeir þurfa að leigja þær af ríkinu, þá hafa þeir ekki lengur þennan hag og hegðun þeirra breytist til hins verra.
5. Útgerðarmenn eru líklegri en stjórnmálamenn og skriffinnar til að ávaxta fiskveiðirentuna skynsamlega. Hún stækkar hraðar í meðförum þeirra. Almenningur nýtur síðan góðs af í fjárfestingum þeirra og neyslu.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. júlí 2025.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook