Thorens-kastali, júlí 2025

IMG_6597

Thorens-kastali stendur hár og gnæfur í Suðaustur-Frakklandi, skammt frá landamærum Svisslands og Ítalíu, við gamlan þjóðveg, gegnt Alpafjöllum. Þar var haldinn sumarháskóli hugveitunnar New Direction í Brussel dagana 30. júní til 4. júlí, sem fimmtíu ungmenni hvaðanæva úr Evrópu sóttu, og talaði ég þar um um norrænar rætur frjálshyggjunnar.

Ég rakti tvær stjórnmálahugmyndir í verkum Snorra Sturlusonar, að valdhafinn verði að hafa umboð þjóðarinnar og að hún megi setja hann af, virði hann ekki hin gömlu, góðu lög, sem myndast hafi við sammæli kynslóðanna. Seinna átti John Locke eftir að binda þessar fornu hugmyndir í kerfi til réttlætingar byltingarinnar blóðlausu í Bretlandi 1688.

Ég minnti á, að 1765, ellefu árum áður en Adam Smith gaf út sitt mikla rit um auðlegð þjóðanna, hafði finnskur prestur sænskumælandi, Anders Chydenius, sett fram svipaða hugmynd um verðmætasköpun í krafti verkaskiptingar og frjálsra viðskipta, en Chydenius var einnig ötull baráttumaður fyrir málfrelsi og trúfrelsi.

Ég lýsti síðan kenningum danska skáldsins og prestsins Nikolais F.S. Grundtvigs, sem taldi brýnt, þegar Danakonungur afsalaði sér valdinu til þjóðarinnar árið 1848, að þjóðin hlyti fræðslu og menntun, bændur lærðu að vera ábyrgir þátttakendur í lýðræðisríkinu, og það gætu þeir gert í lýðháskólum. Grundtvig var frjálslyndur þjóðernissinni, en þjóðernishyggja hans fól ekki í sér yfirgang eða áreitni í garð annarra þjóða eða þjóðabrota.

(Fróðleiksmoli í Morgnblaðinu 5. júlí 2025.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband