31.7.2025 | 14:47
Danmörk í stríði við Alsír
Furðulegt er að sjá vanmátt Evrópusambandsins (og raunar Atlantshafsbandalagsins líka) í Rauðahafi, þar sem Hútar í Jemen stunda sjórán, en tilkynna, að þeir sleppi skipum frá Kína og Rússlandi. Evrópuríkin láta Bandaríkin og Ísrael um að taka á Hútum, sem njóta fjárhagsaðstoðar írönsku erkiklerkanna.
Þetta er þó ekki í fyrsta sinn, sem múslimar gerast sjóræningjar. Íslendingar muna Tyrkjaránið árið 1627, en sjóræningjar frá Alsír herjuðu einnig um svipað leyti á Færeyjar og Írland. Á átjándu öld greiddu Danir stjórnendum múslimaríkja á norðurströnd Afríku árlegt gjald gegn því, að dönsk kaupskip á Miðjarðarhafi væru látin í friði. Þegar nýr landstjóri í Alsír vildi hækka gjaldið neituðu Danir. Þá lýsti hann yfir stríði gegn Dönum, sem sendu að bragði sex herskip þangað suður árið 1770, og skutu þau á Algeirsborg í nokkra daga í júlí, en héldu síðan heim. Árið 1772 sendu Danir annan flota þangað suður, og var þá samið um frið. Danir greiddu landstjóranum háa fjárhæð, en dönskum föngum var sleppt.
Bandaríkin háðu síðan tvö stríð við Barbaríið (eins og það var kallað) á öndverðri nítjándu öld. Árin 1801-1805 héldu þau og (um skeið) Svíþjóð úti flota við strönd Norður-Afríku til að stöðva sjórán á Miðjarðarhafi. Lauk stríðinu með fangaskiptum. Seinna stríðið stóð aðeins í nokkra daga árið 1815, og unnu Bandaríkin fullan sigur. Lauk þá greiðslum til landstjórans í Alsír. Frakkar lögðu síðan Alsír undir sig árið 1830, stöðvuðu öll sjórán og bönnuðu þrælahald.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. júlí 2025.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook