11.5.2025 | 09:52
Þegar sósíalisminn var stöðvaður
Þegar ég var í háskóla fyrir fimmtíu árum, var oft bent á Svíþjóð sem dæmi um vel heppnaðan sósíalisma, en öllum var ljóst, að sósíalisminn hefði misheppnast í Rússlandi, Kína og fylgiríkjum þeirra. Því fór þó fjarri, að Svíar hefðu hrundið í framkvæmd sósíalisma. Laust eftir miðja nítjándu öld höfðu frjálshyggjumenn eins og Johan August Gripenstedt og Louis De Geer völd, og þeir gerbreyttu Svíþjóð, snarjuku þar atvinnufrelsi með þeim afleiðingum, að hagvöxtur varð þar næstu hundrað ár einn hinn örasti í heimi.
Jafnaðarmenn komust að vísu til valda í Svíþjóð 1932, en fóru varlega og höfnuðu stéttabaráttu. Eftir heimskreppuna og heimsstyrjöldina seinni vildu þó sumir þeirra undir forystu hagfræðingsins Gunnars Myrdals taka upp miðstýrðan áætlunarbúskap. En þá var þýdd á sænsku bók, þar sem ensk-austurríski hagfræðingurinn Friedrich A. von Hayek færði rök fyrir því, að slíkur áætlunarbúskapur væri leiðin til ánauðar. Bókin olli hörðum deilum (planhushållningsdebatten). Einn þeirra, sem snerist á sveif með Hayek, var mælskugarpurinn og stjórnmálafræðiprófessorinn Herbert Tingsten.
Vorið 1945 hlustaði ungur íslenskur sósíalisti í Svíþjóð, Jónas H. Haralz, á Tingsten deila í útvarpi við einn kennara sinn, jafnaðarmanninn Karin Kock. Féll mér þungt hversu grátt Tingsten tókst að leika Karinu Kock með beittum málflutningi sínum, en ég var að sjálfsögðu hliðhollur sjónarmiðum hennar, skrifaði Jónas síðar. Sænskir jafnaðarmenn hurfu næstu ár frá hugmyndum um miðstýrðan áætlunarbúskap og féllu í sitt fyrra far. Myrdal hraktist frá Svíþjóð. Sósíalisminn var stöðvaður. Það var síðan kaldhæðni örlaganna, að þeir Hayek og Myrdal deildu saman Nóbelsverðlaunum í hagfræði árið 1974.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. maí 2025. Myndin er af Gripenstedt.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:03 | Facebook