19.4.2025 | 05:24
Frelsi til að skapa
Þegar kommúnisminn hrundi í Austur-Evrópu og Ráðstjórnarríkin liðuðust í sundur árin 19891991, héldu margir, að runnin væri upp ný frelsisöld. Það reyndist að nokkru leyti rétt. Um allan heim voru ríkisfyrirtæki færð í hendur einkaaðila, sem höfðu miklu betri skilyrði til að reka þau en skrumarar og skriffinnar. Einstaklingsfrelsið nam ný lönd, Indverjar hurfu frá haftastefnu, og um skeið virtist jafnvel hið fjölmenna Kínaveldi ætla að skipa sér í sveit lýðræðisríkja. En skjótt skipuðust veður í lofti, sérstaklega eftir árás öfgamúslima á Nýju Jórvík (New York) árið 2001, hina alþjóðlegu fjármálakreppu árin 20072009, valdatöku Xi í Kínaveldi árið 2012, kórónuveirufaraldurinn 20202021, endurteknar innrásir Rússa í Georgíu og Úkraínu og tollastríð í stað frjálsra alþjóðaviðskipta. Getur verið, að frelsisöldin hafi aðeins verið skammvinn og mannkynið muni aftur síga í hið gamla far ofstjórnar og látlausra staðbundinna stríða? Hvernig getum við varið og aukið það frelsi til að skapa, sem hefur verið aðal Vesturlanda og knúið áfram framfarir? Um það er ráðstefna, sem RSE, Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, og Austrian Economics Center í Vínarborg halda í Reykjavík laugardaginn 5. apríl síðdegis.
Kjarngóð stjórnmálahagfræði
Inngangserindi flytur Mark Pennington, hagfræðiprófessor í Kings College, Lundúnum, en hann er einn virtasti fræðimaður yngri kynslóðar frjálslyndra hagfræðinga. Nefnist erindi hans Freedom Under Attack: What Should Be the Response? Sótt að frelsinu: Hvernig ber að bregðast við? Árið 2011 kom út í Lundúnum bók Penningtons, Robust Political Economy (Kjarngóð stjórnmálahagfræði). Það er aðgengilegt yfirlitsrit um frjálshyggju og helstu aðfinnslur að henni. Pennington spyr, hvaða reglur eða stofnanir reynist best við takmarkaða þekkingu einstaklinganna og lítinn náungakærleik, og niðurstaða hans er hin sama og Adams Smiths og Davids Humes á átjándu öld: einkaeignarréttur, viðskiptafrelsi og valddreifing. Eina leiðin til að nýta þá þekkingu, kunnáttu og vitneskju, sem dreifist á einstaklingana, er að dreifa líka valdinu til þeirra. Þetta auðveldar síðan alla þróun á frjálsum markaði, þar sem sumar tilraunir heppnast og aðrar misheppnast, en við það eykst þekkingin. Dreifing valdsins minnkar einnig líkurnar á valdníðslu, sem verður því tilfinnanlegri sem fórnarlömbin eða skotmörkin eru háðari valdhöfum.
Pennington svarar þeirri aðfinnslu hins kunna hagfræðings Josephs Stiglitz, sem hefur oft haldið fyrirlestra á Íslandi, að margvísleg ríkisafskipti séu nauðsynleg til að bæta úr göllum á markaðsviðskiptum, því að til séu markaðsbrestir (market failures). Bendir Pennington á, að stjórnendur og starfsmenn inni í ríkisstofnunum búi ekki síður og raunar miklu fremur við takmarkaða þekkingu en aðilar úti á markaðnum. Þeir hafa hins vegar enga hvatningu til að reyna að fullnægja þörfum samborgara sinna, því að störf þeirra og afkoma er ekki háð því, eins og gerist í frjálsri samkeppni á markaði. Til eru ríkisbrestir (government failures) ekki síður en markaðsbrestir. Pennington ræðir líka þá aðfinnslu heimspekinganna Charles Taylors og Jürgens Habermas við frjálshyggju, að þar sé horft fram hjá því, hvernig þarfir myndast. Jafnframt grafi frjáls samkeppni undan hefðbundnum verðmætum. Pennington svarar því til, að frjáls samkeppni sé umfram allt leið til að uppgötva mannlegar þarfir og fullnægja þeim, en þau verðmæti, sem siðaðir menn beri fyrir brjósti, til dæmis stöðugleiki og samheldni, þrífist miklu betur við frelsi en fyrirskipanir að ofan.
Enn önnur aðfinnsla að frjálsri samkeppni er, að hún leiði til óréttlátrar tekjudreifingar, eins og heimspekingurinn John Rawls hefur haldið fram. Pennington telur hins vegar ólíkt Rawls, að óeðlilegt sé að líta á mannlega hæfileika og náttúruauðlindir sem sameign. Þetta tvennt nýtist ekki nema sem séreign einstaklinga, þar sem þeir fá að bæta við takmarkaða þekkingu sína með tilraunum, höppum og glöppum. Ríkið eigi að láta sér nægja að halda uppi þvíregluverki, sem geri fólki kleift að vinna saman að áhugamálum sínum nauðungarlaust. Þetta eigi til dæmis við í umhverfismálum, þar sem aðalatriðið sé að nýta markaðsöflin, nota verðlagningu í stað skattlagningar, til að minnka umhverfisspjöll. Hér mánefna tvö íslensk dæmi. Að fornu ráku bændur fé á fjall á sumrin, en þá gátu einstakir bændur freistast til að reka þangað of margt fé, því að þeir hirtu ávinninginn, en tapið, sem fólst í ofbeit, dreifðist á marga. Þetta var leyst með ítölunni svokölluðu: Á hverri jörð myndaðist réttur til að reka tiltekinn fjölda fjár á fjall, telja í sumarhagana. Hitt dæmið er af fiskveiðum. Á meðan aðgangur að fiskimiðum var ótakmarkaður, freistuðust einstakir útgerðarmenn til að bæta við bátum, uns allur ávinningur hvarf í of mikilli sókn, offjárfestingu. Þetta var leyst á svipaðan hátt og með ítölunni. Á hverjum báti myndaðist réttur til að veiða tiltekið hlutfall af leyfilegum hámarksafla, aflahlutdeild (kvóti), og þessi réttur varð varanlegur og framseljanlegur. Það merkti, að útgerðarmenn gátu skipulagt veiðar sínar fram í tímann, fært aflahlutdeild sína milli skipa, keypt hana eða selt, og einbeitt sér að því að veiða á sem hagkvæmastan hátt. Þannig voru markaðsöflin nýtt til að tryggja hagkvæmni í fiskveiðum.
Frelsi að fornu
Annar ræðumaður á ráðstefnunni er dr. Gabriel Stein. Hann er hagfræðingur og sagnfræðingur að mennt, en starfar sem fjármálaráðgjafi og fjárfestir í Lundúnum ásamt viðskiptafélaga sínum, John Nugée, sem er líka hagfræðingur og var um skeið deildarstjóri í Englandsbanka. Þeir félagar sóttu í ágúst 2005 ráðstefnu Mont Pelerin Society, alþjóðasamtaka frjálslyndra fræðimanna, í Reykjavík og hrifust af frásögnum um íslenska þjóðveldið, þar sem enginn konungur var annar en lögin, eins og þýski sagnritarinn Adam frá Brimum sagði. Apud illos non est rex, nisi tantum lex. Stein er Svíi af gyðingaættum og talar sænsku, ensku, hebresku, rússnesku, kínversku og ýmis önnur mál. Eitt tómstundagaman hans er að semja sögulegar skáldsögur, og ákváðu þeir Nugée í sameiningu að skrifa skáldsögu um íslenska þjóðveldið. Hún kom út í nóvember 2021 og heitir Sailing Free: The saga of Kári the Icelander (Frjáls á siglingu: Sagan um Íslendinginn Kára), og ætlar Stein að segja okkur frá henni.
Sagan gerist árin 1055-1067. Ragnar er bóndi og farmaður á Snæströnd, sem liggur á norðanverðu Snæfellsnesi. Móðir hans hafði verið hernumin frá Írlandi, en sjálfur hefur hann óbeit á þrælahaldi. Vinnufólk hans er allt frjálst. Synir hans og Hallgerðar konu hans eru Guðmundur og Kári. Ragnar á kaupskip, knörr, og hann sendir Kára í verslunarferðir suður á bóginn, til Kirkjuvogs á Orkneyjum og Jórvíkur á Englandi, og selur hann vaðmál og tennur og húðir rostunga, en kaupir timbur, járn og vefnaðarvöru. Kári ratar í ýmis ævintýri, þar á meðal innrás Haraldar harðráða í England 1066, og hann kemst alla leið suður til Lissabon, þar sem hann situr einn vetur. Heima fyrir gengur Guðmundi erfiðlega að gera upp á milli eiginkonu sinnar Ásu og Jórunnar, dóttur Gunnars goða, en hún er í senn fögur og harðbrjósta.
Að Ragnari bónda látnum eiga þeir Kári og Guðmundur í deilum við Gunnar goða, en ekki er nóg með, að hann sé yfirgangssamur við granna sína, heldur gerir hann á Alþingi 1067 bandalag við klerka um að leggja til sérstök gjöld handa kirkjunni í Róm og vill jafnframt, að Ísland sæki skjól til einhvers sterkara ríkis. Kári stendur þá upp og flytur snjalla ræðu. Bendir hann á, að þeir konungar, sem hann hafi kynnst á ferðum sínum erlendis, séu ærið misjafnir. Sumir þeirra leggi þung gjöld á þegnana og etji þeim út í mannskæðan hernað. Því sé Íslendingum hollast að halda sig við sín gömlu, góðu lög. Ræða hans er bergmál hinnar frægu ræðu Einars Þveræings, sem Snorri Sturluson samdi. Í skáldsögunni létu goðarnir sannfærast. En svo einkennilega vill til, að við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir sama vanda og forðum: Hvert á samband okkar að vera við Evrópusambandið annars vegar og Bandaríkin hins vegar?
Kreppa Evrópusambandsins
Forvitnilegt verður að hlýða á erindi þriðja ræðumannsins, dr. Barböru Kolm, forstöðumanns Austrian Economics Center í Vínarborg, sem starfar í anda austurríska hagfræðiskólans, sem þeir Carl Menger, Ludwig von Mises og Friedrich A. von Hayek stofnuðu. Sá skóli leggur áherslu á frjáls viðskipti og valddreifingu og telur frjálsa samkeppni umfram allt vera þekkingarleit, sem verði þess vegna að vera óheft. Jafnframt er Kolm stjórnmálamaður, því að hún var í nýafstöðnum þingkosningum í Austurríki kjörin á þing fyrir Frelsisflokkinn, og var hún eitt af ráðherraefnum flokksins, en svo fóru leikar, að aðrir flokkar mynduðu stjórnina. Kolm sat í bankaráði austurríska seðlabankans um árabil, en fyrirlestrar hennar og greinar hafa aðallega beinst að því, hvernig Evrópusambandið geti komist út úr þeirri kreppu, sem það er nú í, ekki síst vegna uppivöðslusamra innflytjenda, reglugerðarfargans og ótraustra peninga.
Við uppi á Íslandi horfum upp á margvísleg merki um þessa kreppu. Evrópusambandið hefur reynst þess vanmegnugt að bregðast við hættunni af öfgamúslimum annars vegar og ágengum Rússum hins vegar. Það er að sligast undan blekiðjubákninu í Brüssel, sem nýtur fulltingis stjórnlyndra dómara, en þeir skapa í sífellu ný réttindi á kostnað almennings og atvinnulífs eins og töframenn í hringleikahúsum draga kanínur upp úr höttum sínum. Þessir sömu dómarar sjá hins vegar ekkert athugavert við það, þegar evrópski seðlabankinn brýtur skilyrðislaust bann í stofnskrá sinni við því að veita aðildarríkjunum lán. Þegar öfgamúslimar ráðast með stuðningi Íransstjórnar á evrópsk skip í Súez-skurðinum (en hlífa skipum frá Rússlandi og Kína), hefst Evrópusambandið ekki að, heldur treystir á hernaðarmátt Bandaríkjanna. Nú er hins vegar komið í ljós, að Evrópuríkin geta ekki skilyrðislaust reitt sig á Bandaríkin. Hvað eiga þau þá að taka til bragðs? Hvernig á til dæmis að stöðva Úkraínustríðið, sem snúist hefur upp í þrátefli, tilgangslaust blóðbað?
Einn virtasti stjórnmálamaður Breta, Hannan lávarður, hefur nefnt hugmynd. Hún er, að Stóra Bretland, Ástralía, Kanada og Nýja Sjáland geri með sér samtök, sem verði í senn fríverslunarsvæði og öryggisbandalag, þar sem aðildarríkin njóti góðs af kjarnorkuvopnum Breta, en kosti aukningu þeirra og eflingu. Ég hitti Hannan að máli fyrir skömmu í Mexíkóborg og sagði honum, að hann mætti þá ekki gleyma Íslandi, sem kynni að eiga heima í slíku bandalagi. Það þarf alls ekki að koma í veg fyrir, að landið sé tengt Bandaríkjunum með varnarsamningnum frá 1951, sem virðist enn eiga við, og með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem tók gildi árið 1994 og veitti okkur aðgang að innri markaði Evrópu. En auðvitað hljóta Íslendingar einnig að líta til frændþjóða sinna á Norðurlöndum, og vonandi tekst Evrópuríkjunum að treysta samstarfið við Bandaríkin, þótt blikur séu á lofti. Aðrar þjóðir eiga að vera vinir okkar, en ekki drottnarar (eins og Kári segir í skáldsögu Steins og Einar Þveræingur í Heimskringlu Snorra).
Tveir aðrir ágætir fyrirlesarar eru á ráðstefnunni, prófessor Per Bylund, sem talar um frumkvöðla, en þeir eru sannkallaðir hreyflar kapítalismans með sköpunarmætti sínum, og prófessor Sasa Randelovic, sem talar um þróun nútímahagfræði. Bylund hefur nýlega gefið út bók um frumkvöðla. Ráðstefnan er í stofu M-101 í Háskólanum í Reykjavík og hefst kl. 14 á laugardag. Eru allir velkomnir.
(Grein í Morgunblaðinu 4. apríl 2025. Myndin er af erlendu ræðumönnunum og innlendu skipuleggjendunum.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:28 | Facebook