Samtal í Hámu

GabrielSteinDr. Gabriel Stein, fjárfestir í Lundúnum, flutti erindi á málstofu Hagfræðistofnunar mánudaginn 7. apríl 2025. Að því loknu fengum við okkur kaffi í Hámu, matstofu Háskólans. Að borði okkar komu tvö kurteis ungmenni, piltur og stúlka, sögðust vera frá Noregi og vildu fá að setjast hjá okkur. Í ljós kom, að þau voru trúboðar.
Ungmennin: Trúið þið á Guð?
Ég: Ja, hvað skal segja? Frumspekin fæst við þrjár gátur, tilvist Guðs, ódauðleika sálarinnar og frelsi viljans. Ég kem auga á þrenn rök fyrir tilvist Guðs. Hin fyrstu setti bekkjarbróðir minn úr menntaskóla fram í kvöldverðarboði hjá mér nýlega, Einar Stefánsson, prófessor og uppfinningamaður. Þau eru, að samtalið sé frjótt. Bænin er samtal við Guð, og hún auðveldar mönnum skynsamlegar ákvarðanir. Við þurfum einhvern til að tala við. Önnur rökin eru frá Pascal, að við ættum að veðja á tilvist Guðs, því að það kostar miklu meira að hafa rangt fyrir sér en rétt. Þriðju rökin eru frá Dostojevskíj: Ef Guð er ekki til, þá er allt leyfilegt.
Gabríel: Já, ég trúi á tilvist Guðs, en ég held, að miðaldaheimspekingurinn Móses Maímónídes hafi haft rétt fyrir sér um, að Guð felist í fjarveru, ekki nærveru.
Ég: Svipað og réttlæti er fjarvera ranglætis, friður fjarvera stríðs og frelsi fjarvera kúgunar?
Gabríel: Já, einmitt.
Ég: En hver er þá fjarveran, sem skilgreinir Guð?
Gabríel: Óskapnaður, ringulreið, kaos.
Ungmennin: Þetta er mjög athyglisvert.
Ég: Já, þið eruð frá Noregi. Mér fannst fróðlegt að kynna mér Hans Nielsen Hauge, sem var í senn farandprédikari í Noregi á öndverðri nítjándu öld og athafnamaður. Hann rak mörg fyrirtæki og taldi, að Guði yrði best þjónað með því að græða fé. Sumir lærisveinar hans áttu þátt í því, að Norðmenn settu sér frjálslynda stjórnarskrá árið 1814.
Ungmennin: Þetta er mjög athyglisvert.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. apríl 2025. Myndin er af Gabriel Stein.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband