11.4.2025 | 06:08
Tvö stríð
Samtök eldri sjálfstæðismanna sýndu mér þann sóma að biðja mig að tala á fundi þeirra 26. mars 2025, og kynnti ég þar nýútkomna bók mína, Conservative Liberalism, North and South: Grundtvig, Einaudi and their Relevance Today. Sú bók er samanburður á þjóðlegri frjálshyggju danska skáldsins Grundtvigs og frjálslyndri alþjóðahyggju ítalska hagfræðingsins Einaudis. Ég minnti á norrænu leiðina í alþjóðamálum, sem væri 1) að leyfa einni þjóð að segja skilið við aðra, 2) að færa til landamæri með atkvæðagreiðslum í umdeildum héruðum, 3) að tryggja þjóðabrotum, sem lenda innan þjóðríkis, sjálfræði í sem flestum málum, 4) að halda afsali fullveldis í lágmarki með frjálsri gagnkvæmri aðlögun.
Síðan vék ég að þeim tveimur stríðum, sem háð eru í eða nálægt Evrópu. Stríð eru tvenns konar, þau, sem lýkur með sigri annars aðilans, og þau, sem verða að þrátefli, þar sem hvorugur aðili fær sigrað hinn. Dæmi um hið fyrrnefnda er sigur Ísraelsmanna á Arabaríkjunum árið 1948. Dæmi um hið síðarnefndar er fyrri heimsstyrjöldin, þar sem víglínur breyttust lítt eftir nokkra fyrstu mánuðina, svo að stríðið varð að tilgangslausu blóðbaði.
Stríðið í Ísrael er dæmi um hið fyrrnefnda. Ísrael er að sigra hryðjuverkasamtökin Hamas og Hesbollah. Vopnahlé núna væri jafnórökrétt og vopnahlé í Þýskalandi í ársbyrjun 1945. Ganga verður milli bols og höfuðs á hryðjuverkasamtökunum eins og gert var við nasista árið 1945. Stríðið í Úkráinu er hins vegar dæmi um hið síðarnefnda. Það er orðið þrátefli. Pútín kom ekki fram þeirri ætlun sinni að leggja Úkraínu undir sig, sem betur fer, en Úkraína hefur því miður ekki afl til að reka her hans af höndum sér. Þráteflið er því orðið að tilgangslausu blóðbaði. Eina ráðið þar ólíkt Ísrael er vopnahlé, og þá mætti líta til norrænu leiðarinnar í alþjóðamálum, þótt ég geri mér raunar litlar vonir um það.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. apríl 2025.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook