Dagar í Mexíkó

D48F7989-926D-4553-8A6B-DA5CB74B30BF_1_105_cÁ ráðstefnu í Mexíkóborg 16.–19. mars 2025 kynnti ég ekki aðeins nýútkomna bók mína á ensku um norræna og suðræna frjálshyggju, heldur tók einnig til máls, eftir að prófessor einn hafði rætt um Ameríkuhugtakið og minnst á, að á undan Kristófer Kólumbusi hefðu Íslendingar fundið Ameríku og líklega fleiri. Ég vitnaði í Oscar Wilde, sem sagði: „Íslendingar fundu Ameríku fyrstir, en höfðu vit á því að týna henni aftur.“ Þetta er fyndið, en ekki alls kostar nákvæmt, því að Íslendingar týndu ekki Ameríku, heldur hröktu frumbyggjar þá á brott, eins og lýst er í Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða, en ég hef gert útdrátt úr þeim á ensku undir nafninu The Saga of Gudrid, því að Guðríður Þorbjarnardóttir er í rauninni aðalsöguhetjan í þeim, fyrsta evrópska móðirin í Vesturheimi.
Ég fór líka með aðra gráa fyndni um fund Ameríku eftir þýska heimspekinginn Georg Christian Lichtenberg: „Sá Ameríkumaður, sem fyrstur fann Kólumbus, var óheppinn með fund sinn.“ Þetta er holl áminning um að gleyma ekki frumbyggjunum, sem fundu Ameríku langt á undan Íslendingum og Kólumbusi, líklega um 25 þúsund árum f. Kr., þegar þeir komu yfir Bering-sund frá Asíu. Evrópumenn báru með sér vestur um haf ýmsa smitsjúkdóma, sem þeir voru sjálfir orðnir ónæmir fyrir, en frumbyggjarnir ekki. Talið er, að í Ameríku hafi búið um 60 milljónir manna, áður en landnám Evrópumanna hófst, en allt að 90% þeirra hafi dáið úr bólusótt, myslingum, mýraköldu, inflúensu, taugaveiki, skarlatssótt og öðrum sjúkdómum. Hitt er annað mál, að líklega voru nýlenduherrar Spánverja skömminni skárri en keisarar Asteka og Inka, sem gengu fram af mikilli grimmd.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. mars 2025.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband