16.3.2025 | 17:13
Ný forysta Sjálfstæðisflokksins
Full ástæða er til að óska nýrri forystu Sjálfstæðisflokksins til hamingju, formanninum, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, og varaformanni, Jens Garðari Helgasyni. Við þau eru miklar vonir bundnar. Eflaust hafa þau bæði notið þess hjá landsfundarfulltrúum að koma úr atvinnulífinu, en einn munurinn á Sjálfstæðisflokknum og hinum stjórnmálaflokkunum er, að hann styður öflugt atvinnulíf öllum í hag. Skapa þarf verðmætin, áður en þeirra er notið.
Ég gef þeim Guðrúnu og Jens Garðari tvö ráð. Annað er, að þau láti sig varða skoðanamyndun í landinu, en um hana hafa sjálfstæðismenn verið undarlega áhugalitlir. Í háskólum landsins og á ríkisfjölmiðlum er rekinn skefjalaus áróður fyrir vinstri stefnu. Auðvitað eiga vinstri menn að hafa fullt frelsi til að boða hugmyndir sínar. En það á ekki að vera á kostnað skattgreiðenda. Því miður nýtti Sjálfstæðisflokkurinn ekki það færi, sem hann hafði árið 2013, eftir að vinstri flokkarnir höfðu beðið greipilegan ósigur, til að tryggja eðlilegt jafnvægi í miðlun upplýsinga, sérstaklega í Ríkisútvarpinu, sem er þó skylt að lögum að gæta sanngirni. Þarf Sjálfstæðisflokkurinn að fóðra þá, sem bíta hann?
Hitt ráðið er, að þau Guðrún og Jens Garðar geri sér grein fyrir, að hin raunverulega stéttabarátta á Íslandi er ekki háð á milli auðmagns og verkalýðs, eins og marxistar halda fram, heldur á milli hinna vinnandi og hinna talandi stétta. Þau koma sem betur fer bæði úr röðum hinna vinnandi stétta. En hinar talandi stéttir, sem hittast iðulega á fjölmennum og löngum fundum til að masa um, hvernig skipta megi þeim verðmætum, sem aðrir hafa skapað, hallast auðvitað til vinstri. Það ber dauðann í sér fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fjölga opinberum starfsmönnum og styrkþegum. Með því er hann aðeins að fjölga kjósendum vinstri flokka. Þá er hann enn að fóðra þá, sem bíta hann.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. mars 2025.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook