16.3.2025 | 17:03
Frelsishetjur Svía
Eitt af því, sem ég hef komist að í grúski mínu síðustu ár, er, að Svíar búa að sterkri frjálshyggjuarfleifð. Hún gerði þeim kleift að standast á sautjándu öld áhlaup konunga, sem vildu ótakmarkað vald í nafni Guðs, og á tuttugustu öld áhlaup vinstri sinnaðra stjórnmálamanna, sem vildu ótakmarkað vald í nafni Alþýðunnar. Í sögu Svía standa nokkrar frelsishetjur upp úr.
Ein er Þórgnýr lögmaður Þórgnýsson, sem Snorri segir frá í Heimskringlu, en á þingi Svía árið 1018 tilkynnti hann Ólafi, konungi þeirra, að hann yrði að halda friðinn og fylgja gömlum lögum, ella yrði hann settur af og jafnvel drepinn. Hér var Þórgnýr að vísa í þá ævafornu reglu germanskra þjóða, að konungar væru bundnir af sömu lögum og þegnar þeirra.
Önnur frelsishetjan var aðalsmaðurinn og námueigandinn Engilbrekt Engilbrektsson, sem hafði forystu um uppreisn Svía árið 1434 gegn Eiríki af Pommern, en ári síðar komu fulltrúar ólíkra stétta saman í fyrsta sinn í bænum Arboga, og á sænska þingið rætur að rekja til þess fundar. Það var fram til 1866 stéttaþing og skiptist í fjórar deildir, aðals, klerka, borgara og bænda. Var þá fátítt í Norðurálfunni, að bændur ættu sérstaka fulltrúa á þingi. Orti Tómas Marteinsson biskup árið 1439 fræga drápu um Engilbrekt, og sagði þar, að frelsið væri gulli betra.
Þriðja frelsishetjan var fræðimaðurinn Olaus Petri, sem hét upphaflega Olof Petterson, en hann var lærisveinn Lúters í Wittenberg. Hann samdi Dómarabókina svokölluðu um 1530, en hún er jafnan sett fremst í lögbókum Svía og Finna. Þar er kveðið á um, að allir séu jafnir fyrir lögunum, fátæklingar jafnt og furstar. Ein meginskýringin á velgengni norrænna þjóða síðustu aldir er einmitt öflugt réttarríki.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. mars 2025. Myndin er af Þórgný lögmanni að vera við Ólaf konung við, gerð eftir Christian Krogh.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:28 | Facebook