Fólksflutningar í ljósi sögunnar

VertreibungNorðurlandaþjóðirnar hafa, eins og ég leiði rök að í nýrri bók á ensku, fundið ákjósanlega leið í sambúð þjóða (þótt áður fyrr hafi þær háð ófá stríð hver við aðra). Ef ein þjóð vill ekki lúta annarri, þá segir hún skilið við hana, eins og Norðmenn gerðu 1905, Finnar 1917 og Íslendingar 1918. Ef þjóðabrot er innan ríkis annarrar þjóðar og óánægt með hlutskipti sitt, þá fær það sjálfstjórn, Álandseyingar og Færeyingar. Ef ágreiningur er um landamæri, þá greiða íbúar í landamærahéruðum atkvæði um, í hvaða ríki þeir vilja vera, eins og í Slésvík 1920.

Því miður er norræna leiðin undantekning, ekki regla. Sumar þjóðir virðast ekki geta ekki búið saman vegna gagnkvæms haturs og reyna þá ýmist að útrýma hvor annarri eða hrekja hvor aðra burt. Tyrkir ráku um milljón grískumælandi menn burt eftir sigur í stríði við Grikkland 1922. Finnar flýðu allir sem einn, 400 þúsund manns, frá Kirjálalandi (Karelíu) 1940, eftir að Stalín lagði það undir sig. Um tíu milljónir þýskumælandi manna voru reknar frá Póllandi og Tékkóslóvakíu 1945, og eru það líklega mestu nauðungarflutningar sögunnar. Arabaríkin ráku 850 þúsund gyðinga til Ísrael eftir stofnun Ísraelsríkis 1948, og 726 þúsund Arabar flýðu þá frá Ísrael (þótt ólíkt Grikklandi, Finnlandi og Þýskalandi tækju Arabaríkin ekki á móti þessum bræðrum sínum og systrum, heldur lokuðu þau inni í flóttamannabúðum). Hátt í milljón frönskumælandi manna flýði frá Alsír árið 1962, enda var þeim tilkynnt, að þeir gætu valið um líkkistu eða ferðatösku.

Það er því ekkert nýtt, þegar Trump Bandaríkjaforseti segir einu leiðina í Gaza vera að flytja Arabana á svæðinu burt. Þeir virðast ekki vilja friðsamlega sambúð við Ísrael, eins og árásin 7. október 2023 sýndi, heldur er það beinlínis á stefnuskrá Hamas, sem nýtur líklega stuðnings flestra íbúanna, að útrýma Ísraelsríki. Ég er ekki að mæla með þessari dapurlegu leið, aðeins að benda á, að hún hefur oft verið valin, ef til vill stundum af illri nauðsyn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. febrúar 2023. Ljósmyndin er af þýskumælandi mönnum, sem reknir voru árið 1945 úr heimalöndum sínum, þar sem þeir höfðu búið kynslóðum saman.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband