Páll Ólafsson orti fræga vísu um Arnljót Ólafsson:

Mér er um og ó um Ljót,

ég ætla hann vera dreng og þrjót,

Í honum er gull og grjót,

hann getur unnið mein — og bót.

Vísan gæti sem best átt við um Donald Trump, nýkjörinn Bandaríkjaforseta. Hér skal ég nefna nokkur atriði, þar sem hann getur unnið bót:

1. Evrópuríkin eiga að greiða kostnað af eigin vörnum, ekki Bandaríkin.

2. Bandaríkin eiga ekki að flækjast inn í stríð þar sem þau hafa lítilla sem engra hagsmuna að gæta.

3. Vísa ber úr landi ólöglegum hælisleitendum sem framið hafa afbrot, jafnt á Íslandi og í Bandaríkjunum.

4. Fólk á að fá stöður, styrki og önnur gæði, sem hið opinbera úthlutar, fyrir eigin verðleika en ekki vegna litarháttar, trúar, kynferðis eða kynhneigðar.

5. Karlar eiga ekki að fá að keppa í kvennaíþróttum.

6. Bandaríkin eiga ekki að taka þátt í tilraunum í kínverskum rannsóknarstofum til að erfðabreyta veirum og styrkja þær.

7. Vandséð er hvaða gagn jafnréttisfulltrúar og mannréttindaskrifstofur opinberra stofnana og háskóla gera.

8. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) virðist undir óeðlilega miklum áhrifum frá Kína.

9. Grænlendingar hljóta sjálfir að ráða hlutskipti sínu, ekki Danir.

10. Bandaríkjamenn hafa fulla ástæðu til að vera stoltir af arfleifð sinni og menningu.

Ég læt aðra um að benda á hvar Trump getur unnið mein.