1.2.2025 | 09:07
Upphaf Íslendingasagna
Margar skýringar eru til á því að á Íslandi voru á þrettándu öld settar saman sögur sem áttu ekki sinn líka annars staðar. Hér skulu nefndar fjórar.
1) Íslendingar voru fáir og máttu sín ekki mikils. Eina vopn þeirra var orðsins brandur, mælskulistin, til dæmis þegar Haraldur blátönn Danakonungur gerði árið 982 upptækt skip í eigu Íslendings. Þá hefndu Íslendingar sín með því að yrkja um konung níðvísur, eina á hvert nef.
2) Íslendingar stunduðu aðallega sauðfjárbúskap, en þá var fátt við að iðja í skammdeginu annað en semja sögur og segja. Auðvitað var líka skammdegi annars staðar á Norðurlöndum, en þungamiðja menningarinnar lá þar sunnar.
3) Á þrettándu öld voru komnir hér til sögu höfðingjar sem höfðu nægileg fjárráð til að halda uppi skrifurum heilu veturna og útvega sér kálfskinn í bókfell, en það var ekki áhlaupsverk.
4) Íslendingar voru lausir við hinn langa arm konunga, en það skipti máli af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi kom eitt söguefni beint upp í hendur þeirra: hvernig ráða mætti fram úr deilumálum í landi án framkvæmdavalds. Íslendingasögur eru um leitina að jafnvægi við þær aðstæður. Í öðru lagi var hér engin opinber ritskoðun, en konungum og hirðmönnum þeirra var ekki alltaf borin vel sagan í fornbókmenntum Íslendinga.
Í þriðja lagi rákust á tvær hugmyndir um lög og ríkisvald á þrettándu öld. Önnur var að lögin væru sammæli landsmanna, arfleifð kynslóðanna, og konungar undir þau seldir. Hin var að lögin væru fyrirmæli konunga og þeir þeim ofar. Upp úr þessum árekstri spruttu Íslendingasögur og konungasögur (til dæmis Egils saga og Heimskringla Snorra). Höfundar þessara sagna sóttu hvatningu til landnámsmanna, sem ekki vildu una sterku konungsvaldi, heldur varðveita fornt frelsi.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. janúar 2025.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook