1.2.2025 | 09:05
Snorri og Malthus
Áður hef ég vikið að því, að í Heimskringlu Snorra Sturlusonar er að finna sömu hugmynd og Adam Smith batt í kerfi, að frjáls viðskipti væru báðum aðilum í hag. Sænskir bændur vildu versla við nágranna sína í Noregi, en eitt sinn gátu þeir það ekki vegna hernaðar. Rögnvaldur jarl Úlfsson taldi upp hvert vandræði Vestur-Gautum var að því að missa þeirra hluta allra af Noregi er þeim var árbót í, eins og segir í 80. kafla Ólafs sögu helga. Menn kaupa það, sem þeim er árbót í. Ég hef einnig bent á, að í ræðu Einars Þveræings, sem Snorri samdi, er að finna sömu hugmynd og Karl R. Popper gerði að aðalatriði í stjórnmálaheimspeki sinni: úrlausnarefnið sé að bregðast við misjöfnum valdsmönnum, eins og segir í 125. kafla Ólafs sögu helga.
Fleiri merkilegum hugmyndum bregður fyrir í Heimskringlu. Snorri segir í 43. kafla Ynglinga sögu frá þeim sið Svía í hallæri að kenna konungum um og drepa þá. Hann bætir við: Þeir er vitrari voru af Svíum fundu þá að það olli hallærinu að mannfólkið var meira en landið mætti bera en konungur hafði engu um valdið. Þetta er sú kenning, sem Thomas Malthus setti fram á öndverðri nítjándu öld: að hallæri yrði, þegar mannfólkið væri meira en land mætti bera. Þessi kenning átti lengi við. Ísland var til dæmis í eins konar Malthusar-gildru í þúsund ár. Færi fólksfjöldinn fram úr um fimmtíu þúsund varð hallæri, sem leiddi til fólksfækkunar. Það var ekki fyrr en kapítalisminn kom til sögu, að Íslendingar losnuðu eins og aðrar þjóðir úr þessari gildru. Kapítalisminn er sú fróðakvörn, sem malar auð og frið.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. janúar 2025.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook