Strandveiðar og hvalveiðar

Menn geta eflaust stutt strandveiðar og hafnað hvalveiðum af tilfinningaástæðum, en þeir geta ekki fært nein frambærileg fræðileg rök fyrir því.

Kvótakerfið íslenska er hagkvæmasta lausnin, sem enn hefur fundist á „samnýtingarbölinu“ svokallaða (Tragedy of the Commons), en það er, að ótakmarkaður aðgangur að takmarkaðri auðlind leiðir til ofnýtingar hennar. Við kvótakerfið geta handhafar ótímabundinna og framseljanlegra kvóta skipulagt fjárfestingar sínar og rekstur á þann veg, að veiðarnar verði sem hagkvæmastar. Strandveiðar mynda hins vegar gat á þeim garði, sem kvótakerfið reisir í raun í kringum fiskimiðin. Þar verður til óhagkvæmt kapphlaup um að veiða sem mest, áður en veiðarnar eru stöðvaðar. Þar verður til sóun, sem bitnar að lokum á landsmönnum öllum.

Bann við hvalveiðum er ekki þáttur í neinni umhverfisvernd. Nóg er í sjónum af þeim tveimur stofnum, sem Íslendingar veiða, hrefnu og langreyði. Hvalur hefur enga þá sérstöðu heldur í náttúrunni, sem réttlætt gæti bann við að neyta hans. Slíkt bann væri jafnmikil trúargrilla og bann múslima við svínakjöti og hindúa við nautakjöti. Jafnframt stundar hvalur afrán. Hann étur um sex milljónir tonna á ári af smáfiski og öðru sjávarmeti á Íslandsmiðum, á meðan við löndum aðeins röskri einni milljón tonna af fiski. Það raskar jafnvægi að kippa einni dýrategund út úr fæðukeðjunni. Það er einmitt nauðsynlegt að grisja hvalastofnana tvo.

Hið eina skynsamlega er að stöðva strandveiðar og leyfa hvalveiðar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. janúar 2025.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband