Skúmarnir garga

Í nýútkomnum dagbókum hefur Ólafur Ragnar Grímsson margt eftir mönnum og iðulega í óþökk þeirra. Hann nafngreinir til dæmis lagaprófessor í Háskóla Íslands, sem hafi sagt sér, að Þorvaldur Gylfason, áhugamaður um stjórnarskrárumrót, líktist helst „svindlurunum í ætt föður síns“.

Hér er átt við alræmdan svikahrapp, Björn Gíslason, afabróður Þorvaldar, en um hann samdi Ragnheiður Jónsdóttir skáldsögu árið 1945, Í skugga Glæsibæjar. Var hann einn af „filisteunum“, sem Jónas frá Hriflu skrifaði um frægan greinaflokk árið 1915. Þegar Björn var kominn á Hrafnistu eftir róstusama ævi, spurði blaðamaður, hvernig honum líkaði vistin. „Vel, svo lengi sem maður getur látið eitthvað illt af sér leiða!“

Þorvaldur brást við dagbókunum á Snjáldru (Facebook) og sagði Ólaf Ragnar vera „asshole“ og vitnaði í bandarískan heimspekiprófessor, Aaron James, sem skrifað hefði bók um þessa manntegund. Erfitt er að þýða orðið í hinni yfirfærðu merkingu þess, en okkar blæbrigðaríka tunga á þó skammaryrðin hrappur, fantur, skarfur, þrjótur, pjakkur, gikkur, skálkur, durgur, auli, óþokki og ódrengur.

Í stað þess að grípa til grófs erlends skammaryrðis hefði jafnvel mátt leita til séra Eggerts á Vogsósum, sem flokkaði sóknarbörn sín í skúma og lóma. Skúmarnir voru hrokafullir og óheilir, lómarnir hjartahreinir og lítillátir. Í þessu dæmi garga tveir skúmar hvor á annan.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. janúar 2025.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband