Tímamót í stjórnmálasögunni?

Lífið er, eins og Milan Kundera sagði, ganga inn í þoku, þar sem við sjáum allt skýrt, þegar við horfum um öxl, en óglöggt hitt, sem framundan er. En hugsanlega marka þingkosningarnar 30. nóvember 2024 tímamót í stjórnmálasögunni. Nú er aðeins einn yfirlýstur vinstri flokkur eftir á þingi með 21 af hundraði atkvæða, Samfylkingin, en undir nýrri forystu hefur hann hallast talsvert til hægri. Allt frá því í þingkosningunum 1931 hafa fjórir flokkar keppt um atkvæði kjósenda, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag (og forverar þess, kommúnistaflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn).

Það er álitamál, hvort þessum fjórum flokkum fækkaði í þrjá árið 1999, þegar Samfylkingin var stofnuð með samruna Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og tveggja smáflokka, eða hvort það gerðist núna, þegar Vinstri grænir duttu af þingi. Var hinn rétti arftaki Alþýðubandalagsins Samfylkingin, eða var hann Vinstri grænir? Þótt Samfylkingin hefði erft digra sjóði Alþýðuflokks og Alþýðubandalags, minntu Vinstri grænir óneitanlega meira á hið gamla Alþýðubandalag en Samfylkingin. Andspænis Samfylkingunni standa nú fimm flokkar, sem allir eru mið- eða mið-hægri flokkar.

Þegar litið er til skamms tíma, var ríkisstjórninni 2021–2024 afdráttarlaust hafnað. Vinstri grænir hurfu nánast, og Framsóknarflokkurinn missti meira en helming síns fylgis. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði um fimmtungi síns fylgis, og fór þó betur en á horfðist. En furðulegt var að heyra Þorstein Pálsson og fleiri spekinga halda því fram í kosningasjónvarpi Stöðvar tvö, að nú væri Sjálfstæðisflokkurinn í fyrsta sinn ekki stærsti flokkurinn. Þeir muna ekki, að hið sama gerðist í þingkosningunum 2009. Stjórnmálasagan sýnir okkur síðan, að flokkar, sem stofnaðir eru utan um menn frekar en málefni, endast illa, og gætu það orðið örlög Miðflokksins og Flokks fólksins, eins og varð um Samtök frjálslyndra og vinstri manna, Bandalag jafnaðarmanna, Borgaraflokkinn og Þjóðvaka. Hver veit, hvað býr í þokunni?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. desember 2024.)    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband