27.12.2024 | 08:59
Osló, nóvember 2024
Fimmtudagskvöldið 14. nóvember 2024 var ég staddur í Osló og notaði tækifærið til að rabba við nokkra íhaldsstúdenta um nýútkomna bók mína, Conservative Liberalism, North and South: Grundtvig, Einaudi and their Relevance Today. Ég benti á, að frjálshyggja ætti sér djúpar rætur í venjurétti og þinghaldi norrænna þjóða, eins og Snorri Sturluson skrifaði um í Heimskringlu, en líka í náttúrurétti heilags Tómasar af Akvínas, en hann var sammála Snorra um, að konungar væru bundnir af lögum og að afhrópa mætti þá, sem brytu þau. Upp úr þessum hugmyndum spryttu réttarríkið, að lögin réðu frekar en mennirnir, og lýðræðið, að almenningur gæti skipt um valdhafa á nokkurra ára fresti, ef hann vildi.
Í rabbinu bar ég saman þjóðernis-frjálshyggju danska skáldsins Grundtvigs og alþjóða-frjálshyggju ítalska hagfræðingsins Einaudis. Ég sagði frá því, sem ég kalla norrænu leiðina í alþjóðamálum: friðsamlegur aðskilnaður þjóða, sjálfstjórn þjóðarbrota, landamærabreytingar samkvæmt atkvæðagreiðslum, málskot til alþjóðadómstóla um deilumál ríkja og sjálfsprottið samstarf þeirra með lágmarksafsali fullveldis.
Enn fremur benti ég á mögulegar umbætur í Evrópusambandinu: að breyta framkvæmdastjórninni í venjulega stjórnsýslustofnun og færa lagasetningarvald hennar til Evrópuþingsins, að skipta Evrópuþinginu í efri deild ríkja og neðri deild kjósenda, að hætta að velja aðeins inn miðstýringarsinna í Evrópudómstólinn, að stofna sérstakan dómstól um nálægðarregluna (subsidiarity principle), sem úrskurðaði um valdmörk þjóðríkja og Evrópusambandsins, og að herða reglur um evrópska seðlabankann.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. nóvember 2024.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook