Upphaf kvótakerfisins

Almenna bókafélagið gaf 7. nóvember 2024 út bókina Fish, Wealth, and Welfare: Selected Scientific Papers, Fiskur, fé og farsæld: Valdar vísindaritgerðir, eftir dr. Ragnar Árnason, prófessor emeritus í fiskihagfræði í Háskóla Íslands. Af því tilefni var haldin alþjóðleg ráðstefna í Hátíðarsal Háskóla Íslands með þremur kunnum fiskihagfræðingum frá útlöndum 8. nóvember. Var hún vel sótt og fyrirlestrarnir hinir fróðlegustu. Einn gestur var íslenskur að ætt, en hefur starfað í Noregi alla sína tíð, Rögnvaldur Hannesson.
Fiskihagfræðin kennir okkur, að fiskistofnar séu takmörkuð gæði, sem takmarka verði aðganginn að. Ragnar rifjaði upp, að á háskólaárunum vann hann á Þjóðhagsstofnun á sumrin, þar sem honum var falið að kynna sér nýjustu rannsóknir í fiskihagfræði, þar á meðal doktorsritgerð Rögnvalds Hannessonar frá 1975, sem var brautryðjendaverk. Þetta sama ár var settur leyfilegur hámarksafli í síld, og fengu allir síldarbátarnir sömu aflahlutdeild. Bráðlega fóru að heyrast raddir um, að hagkvæmt gæti verið að leyfa framsal aflaheimilda milli báta. Á þetta máttu embættismenn ekki heyra minnst og vildu banna allt framsal.
Ragnar spurði hins vegar: Hvers vegna ekki að leyfa það? Hann fékk Jakob Jakobsson fiskifræðing í lið með sér, og framsalið var leyft. Það olli hagræðingu í greininni. Þetta var vísir að því kerfi framseljanlegra og varanlegra aflaheimilda, sem til varð í sjávarútvegi og hefur reynst í senn arðbært og sjálfbært. Framsalið tryggir, að þeir útgerðarmenn, sem reka báta sína með mestum hagnaði, halda áfram veiðum, en hinir flytjast í önnur störf, sem henta þeim betur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. nóvember 2024.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband