27.12.2024 | 08:51
450 ára saga merkilegs lýðveldis
Þegar Vilhjálmur kardínáli af Sabína kom til Noregi árið 1247 í því skyni að krýna Hákon gamla, sagði hann þá ósannlegt um Ísland, að það þjónaði ekki undir konungi eins og öll önnur lönd. Íslenskir sagnfræðingar hafa ekki bent á, hversu fráleit þessi fullyrðing var miðað við aðstæður sjálfs kardínálans. Hann var frá Ítalíu, þar sem nokkur borgríki þjónuðu ekki undir neinn konung, og hann hafði árið 1222 verið í Líflandi (Eistlandi og Lettlandi nútímans) að miðla málum milli riddarareglu, sem réð landinu, og nágrannaríkjanna. En mér duttu þessi orð í hug, þegar ég var á dögunum staddur í króatísku borginni Dubrovnik við Adríahaf. Árið 1247 var borgin enn á valdi Feneyinga (og ekki neins konungs), en árið 1358 tókst íbúunum að stofna sjálfstætt lýðveldi, sem stóð allt til 1808, þegar Napóleon beitti valdi til að leggja það niður.
Lýðveldið Dubrovnik (sem þá var nefnt ítalska nafninu Ragusa) var að sínu leyti jafnmerkilegt og íslenska þjóðveldið. Því stjórnuðu (eins og íslenska þjóðveldinu) nokkrar ættir, um fimmtíu (en á Íslandi voru 39 goðar). Menn úr þessum ættum settust allir í stórráð borgarinnar, þegar þeir náðu 18 ára aldri. Stórráðið kaus sjö manna framkvæmdaráð, 45 manna öldungadeild og höfuðsmann (rektor), sem kom fram fyrir hönd lýðveldisins út á við og fór með framkvæmdavald í samstarfi við framkvæmdaráðið og öldungadeildina. Reynt var að koma í veg fyrir frændhygli og aðra spillingu með því, að hver höfuðsmaður sat aðeins í einn mánuð, og ekki mátti endurkjósa hann fyrr en eftir tvö ár. Ef til vill mætti líkja honum við íslenska lögsögumanninn, þótt sá væri kjörinn til þriggja ára, en hann var í rauninni eini embættismaður Þjóðveldisins.
Stjórnarfar var frjálslegt í Dubrovnik, þótt aðalsættirnar fimmtíu færi einar með ríkisvaldið. Borgin dafnaði vel og var miðstöð verslunar milli Tyrkjaveldis soldánsins og Evrópuríkja. Urðu margir íbúar auðugir. Löggjöf var sniðin að þörfum verslunar og atvinnulífs, en á fána lýðveldisins var letrað orðið Libertas, frelsi.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. nóvember 2024.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook