Dubrovnik, október 2024

Dubrovnik í Króatíu er ein fallegasta borg, sem ég hef komið til. Þar talaði ég á ráðstefnu evrópskra íhalds- og umbótaflokka um fjölskylduna, aldursþróun og frjósemi 18. október 2024. Ég rifjaði upp, að Aristóteles gerði í Mælskulistinni greinarmun á viðhorfum æskumanna, sem létu stjórnast af vonum, og öldunga, sem yljuðu sér við minningar. Rosknu fólki hefði fjölgað hlutfallslega með hækkandi meðalaldri, og það kysi frekar í kosningum en ungt fólk, svo að það hefði síaukin stjórnmálaáhrif. En ellin þyrfti síður en svo að vera byrði á æskunni. Hún gæti lagt sitt af mörkum til aukinnar framleiðslu og neyslu. Kænir stjórnmálamenn ættu að höfða jafnt til vona æskunnar, fjölga tækifærum, og ótta ellinnar, verjast óþjóðalýð. 
Ég sagði hagfræðinga hafa bent á, að fjölskyldan hefði löngum verið eins konar gagnkvæmt tryggingarfélag og vettvangur sjálfvalinnar verkaskiptingar kynjanna, jafnframt því sem hún væri miklu hagkvæmari neyslueining en einstaklingurinn. Fjölskyldan miðlaði líka nauðsynlegri þekkingu í báðar áttir. Góðir foreldrar ælu börn sín upp við þær reglur og dygðir, sem best hefðu reynst, svo sem stundvísi, vinnusemi, orðheldni og hreinlæti. Þannig miðluðu þeir til þeirra reynsluviti fyrri kynslóða, fortíðinni. Fjölskyldan bætti síðan framtíðinni við í útreikninga og ákvarðanir einstaklinga, því að þeir vildu sem foreldrar skilja eitthvað eftir fyrir börn sín, búa í haginn fyrir þau. Erfðaskattur væri ranglátur, því að með honum væri umbunað fyrir eyðslu og refsað fyrir sparnað, samtíðin tekin fram yfir framtíðina.
Ég bætti því við, að fjölskyldan gæddi líf einstaklinganna tilgangi og merkingu. Hún víkkaði út sjálfið. Menn lifðu ekki aðeins fyrir sjálfa sig, heldur líka fyrir maka og börn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. október 2024.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband