27.12.2024 | 08:45
Blóðbaðið 1947
Í Indlandsför í september 2024 komst ég að því, hversu lítið ég vissi um fjölmennasta ríki heims og vænlegan bandamann Vesturveldanna gegn öxulveldunum ágengu (Kína, Rússlandi, Íran og Norður-Kóreu). Breska ríkið tók stjórn Indlands úr höndum Austur-Indía félagsins árið 1858, en hreyfði ekki við hinum mörgu furstadæmum, þar sem um þriðjungur Indverja bjó. Árin milli stríða var stefnt að heimastjórn. Bretar og raunsæir Indverjar unnu að því, að Indland yrði ríkjasamband með sameiginlegar varnir, utanríkisstefnu og gjaldmiðil, en hver eining með fótfestu í sögunni stjórnaði sér að öðru leyti sjálf eftir eigin hefðum og venjum. Var það eðlilegt, því að Indverjar skiptust í ótal hópa eftir málum, uppruna og trúarbrögðum. Í norðurhlutanum var skiptingin skýrust milli hindúa, sem töluðu hindi, og múslima, sem töluðu urdu, en þótt málin séu náskyld, eru þau skrifuð með ólíku letri.
Ekkert varð þó úr hugmyndum um valddreifingu í lauslegu ríkjasambandi lýðvelda og furstadæma, þar sem samkeppni um þegna hefði haldið aftur af valdhöfum. Indverski þjóðarráðsflokkurinn (Congress), sem var aðallega skipaður vinstri sinnuðum menntamönnum, heimtaði eitt miðstýrt ríki. Múslimar gátu hins vegar ekki hugsað sér að lenda undir stjórn hindúa. Í Bretlandi komst árið 1945 til valda vinstri stjórn, sem hafði samúð með miðstýringarmönnum. Hún ákvað að leyfa forystumönnum hindúa og múslima að skipta landinu, og Bretar hröðuðu sér á braut árið 1947. Afleiðingin varð eitt mesta blóðbað nútímans, sem síðasti breski landstjórinn, Mountbatten lávarður, bar verulega ábyrgð á með óðagoti sínu. Líklega hafa samkvæmt nýjustu rannsóknum um tvær milljónir týnt lífi í vígaferlum hindúa og múslima, en átján milljónir flúið á víxl milli Indlands og hins nýja múslimaríkis Pakistans. Þessi hræðilegi harmleikur hefði aldrei þurft að eiga sér stað.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. október 2024.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook