27.12.2024 | 08:40
Agra, september 2024
Í Indlandsferð í september 2024 skrapp ég til Agra, sem er um 230 km í suðaustur frá Nýju Delí. Hún var um skeið höfuðborg Múgal-keisaradæmisins, sem náði til mestalls Indlandsskaga. Þar skoðaði ég Taj Mahal, sem keisarinn Shah Jahan (15921666) reisti til minningar um eiginkonu sína. Þetta grafhýsi er með réttu talið eitt af fegurstu mannvirkjum heims, gert úr hvítum marmara og allt að því ójarðneskt, þokkafullt, svífur frekar en stendur. Enn fremur lagði ég leið mína í Agra-virkið, sem var feikistór keisarahöll, en sonur Shah Jahan hneppti hann í stofufangelsi þar, þótt sú bót væri í máli, að hann gat horft á grafhýsi eiginkonunnar úr íbúð sinni.
Í Agra-virki varð mér ljóst, hvílíkt stórveldi Indland var um 1700. Þá bjó þar um fimmtungur jarðarbúa, og landsframleiðslan nam um fjórðungi heimsframleiðslunnar. Þegar Indland varð sjálfstætt ríki árið 1947, nam landsframleiðslan hins vegar aðeins fjórum af hundraði heimsframleiðslunnar, en Indverjar voru þó enn um fimmtungur jarðarbúa. Hvað gerðist? Hvers vegna dróst Indland aftur úr? Marxistar svara því til, að Bretar hafi arðrænt Indland eins og borgarastétt hvers lands hafi arðrænt öreiga. Sá galli er á þeirri kenningu, að stöðnun atvinnulífsins hafði hafist þegar snemma á átjándu öld, áður en Bretar komu til sögu. Múgal-keisaradæmið hafði veikst stórlega og misst yfirráð yfir mörgum svæðum Indlandsskaga og innrásarherir látið greipar sópa. Togstreita hindúa og múslima olli líka búsifjum. Minnir sú saga talsvert á þrjátíu ára stríðið í Þýskalandi 16181648, sem tafði framfarir þar um hátt í tvær aldir.
Síðan náði Austur-Indíafélagið yfirráðum yfir víðáttumiklum svæðum Indlandsskaga, en Adam Smith benti réttilega á í Auðlegð þjóðanna, að það væri illa fallið til að fara með völd. Þegar Bretar tóku loks stjórn Indlands í sínar hendur árið 1858, var erfitt að snúa við blaðinu, auk þess sem nýlenduherrarnir voru stundum tómlátir um þetta mikla land.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. október 2024.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook