Nýja Delí, september 2024

Það var einkennileg tilfinning að koma frá einu fámennasta landi jarðar til Indlands, sem nú er fjölmennasta ríki heims með nær 1,5 milljarð íbúa. Þar sat ég 22.–26. september í Nýju Delí ráðstefnu Mont Pelerin samtakanna, sem Friedrich von Hayek stofnaði árið 1947 sem alþjóðlegt málfundafélag frjálslyndra fræðimanna.
Indland hlaut sjálfstæði sama ár og samtökin voru stofnuð. Næstu 42 árin réð þar ein fjölskylda mestu, Jawaharlal Nehru, forsætisráðherra 1947–1964, dóttir hans, Indira Gandhi, forsætisráðherra 1966–1977 og 1980–1984, og sonur hennar, Rajiv Gandhi, forsætisráðherra 1984–1989. Þessi valdafjölskylda hafði hlotið menntun hjá breskum sósíalistum og reyndi að koma á sósíalisma á Indlandi. Afleiðingin varð stöðnun og fátækt. Haft var á orði, að „the British Raj“ hefði breyst í „the Licence Raj“, breskt vald í leyfisveitingavald. En árið 1991 gerbreyttu Indverjar um stefnu, opnuðu hagkerfið og stórjuku atvinnufrelsi. Árangurinn var ævintýralegur. Hagvöxtur á mann hafði verið innan við 2% að meðaltali fyrstu þrjá áratugina eftir sjálfstæði, en margfaldaðist nú, var til dæmis 9% árið 2021 og 7% árið 2022. Fátækt snarminnkaði, þótt enn sé hún tilfinnanleg.
Á ráðstefnunni í Nýju Delí bar einn fyrirlesarinn saman frammistöðu nokkurra ríkja, Filippseyja og Suður-Kóreu, Botsvana og Sambíu og Dómínikanska lýðveldisins og Níkaragúa, og var samanburðurinn undantekningarlaust atvinnufrelsinu í vil. Á meðan ég hlustaði á ræðu hans, velti ég því fyrir mér, hvort Bretar hefðu ekki gert mistök með því að veita ekki einstökum ríkjum Indlands, til dæmis furstadæmunum Hyderabad og Mysore, sjálfstæði árið 1947 í stað þess að afhenda hrokafullu háskólafólki öll yfirráð í einu risaríki. Þá hefði ef til vill orðið til samkeppni einstakra indverskra ríkja um skynsamlega hagstjórn. Hafi einhver við þetta að athuga, að úrelt sé að fela furstafjölskyldum völd, þá má benda á, að ein fjölskylda stjórnaði einmitt Indlandi í röska fjóra áratugi, þótt hún kenndi sig við alþýðuna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. september 2024.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband