Hæfi Róberts Spanó

Þögnin getur verið merkileg heimild. Vorið 2009 gerði Sigríður Benediktsdóttir í Rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu sig vanhæfa með gáleysislegum ummælum í bandarísku stúdentablaði. Aðrir nefndarmenn báðu hana að víkja, en hún neitaði. Þeir gáfust upp og breyttu niðurstöðu sinni með fráleitum rökum. Róbert Spanó þagði.

Nokkru eftir að naumur meiri hluti Alþingis ákvað haustið 2010 að höfða mál gegn Geir H. Haarde fyrir Landsdómi, settist Eiríkur Tómasson í dóminn. Hann hafði ekki aðeins verið stjórnmálaandstæðingur Geirs, heldur líka haldið því fram opinberlega, að neyðarlögin 2008, sem Geir bar fram,  væru hreinn stuldur frá reikningseigendum í peningamálasjóðum, en þar geymdi hann fé samtaka, sem hann stjórnaði. Spanó þagði.

Eiríkur hafði einnig skrifað grein á visir.is þar sem hann kenndi ríkisstjórn Geirs H. Haarde beinlínis um bankahrunið, en sú grein hvarf skyndilega eftir stuttan tíma. Spanó þagði. Hann veitti hins vegar þingmönnum vinstri flokka aðstoð við undirbúning málsins gegn Geir.

Nú ryðst Spanó skyndilega fram og telur auðheyrilega hafa verið rétt að áminna vararíkissaksóknara fyrir ýmis óvarleg ummæli opinberlega og síðan leysa hann tímabundið frá störfum. Sjálfur tel ég hafa verið rétt að vanda um við vararíkissaksóknara fyrir ummælin og leggja fyrir hann að fara embættis síns vegna gætilega, en láta þar við sitja.

Það breytir því ekki, að óþjóðalýður reynir nú að þagga niður í mönnum. Stendur hann að kærunni á hendur vararíkissaksóknara. Einn úr hópnum réðst á utanríkisráðherra á fundi í Háskólanum, annar reyndi að stökkva af áheyrendapöllum Alþingis niður í fundarsalinn, og þessi lýður hefur hvað eftir annað truflað starfsfrið þingsins. Leiðtogi hans er hin hálftyrkneska Sema Serderoglu, en þegar Spanó starfaði í Strassborg, spókaði hann sig með hinum illræmda Erdogan Tyrklandsforseta.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. september 2024.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband