27.12.2024 | 08:27
Nauðsynleg upprifjun
Stuðningsmenn Dags B. Eggertssonar rjúka upp eins og nöðrur, ef á það er minnst, að hann lét greiða sér tíu ára uppsafnað orlof, um tíu milljónir króna, við nýleg starfslok sem borgarstjóri. Þegar ég birti á Snjáldru (Facebook) afrit af pistli mínum um málið, hvæsti þar bróðir Dags, Gauti B. Eggertsson: Kannski þú gefir þér tíma til ad útskýra hvernig Davíð Oddson [svo] tekst at [svo] kreista út 4 milljónum [svo] í hverjum einasta mánuði m.a. 2 milljónir á mánuð fyrir að hafa gegnt stöðu forætisráðherra [svo], sérsniðið ákvæði fyrir hann, byggt á eigin eftirlaunalögum sem voru svo gróf að ég veit ekki betur en þau hafi verið felld úr gildi en voru þó ekki afturvirk. Svo er spurning hvernig honum hafi tekist að kreista út hinar tvær milljónirnar. Hann bætti við: Etv vill fyrir að setja seðlabankann á hausinn?
Ég svaraði því til, að Davíð Oddsson hefði ekki verið upphafsmaður eftirlaunafrumvarpsins, og sagði síðan: Seðlabankinn varð aldrei gjaldþrota. Stofnanir verða gjaldþrota, þegar þær geta ekki lengur staðið við skuldbindingar sínar og eru gerðar upp. Hvenær varð það? Aldrei. En auðvitað tapaði Seðlabankinn verulegu fé á því að reyna að halda bankakerfinu gangandi, áður en það hrundi. Hann lánaði gegn veikum veðum (m. a. ástarbréfum), þótt hann setti að vísu strangari reglur (aðeins lánað gegn skráðum bréfum) en flestir aðrir seðlabankar. Seðlabankinn, sem þú starfaðir hjá, Seðlabankinn í New York, lánaði gegn miklu lakari veðum, jafnvel ruslbréfum og hlutabréfum, eins og tókst að upplýsa eftir mikinn málarekstur fyrir bandarískum dómstólum. Og auðvitað tapaði Seðlabankinn íslenski miklu á því, að stjórnvöld fóru að því ráði hans (í frumvarpinu, sem smíðað var í Seðlabankanum, ekki síst með aðstoð Ragnars Önundarsonar) að gera innstæður að forgangskröfum á banka, sem fól í sér, að kröfur Seðlabankans á banka voru settar aftur fyrir.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. ágúst 2024.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook