Dagur í orlofi

Sumt getur verið löglegt, en siðlaust, til dæmis þegar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lét við starfslok á dögunum greiða sér tíu milljónir í uppsafnað orlof, en hann nýtur áfram fullra launa sem borgarfulltrúi og formaður borgarráðs. Sumir opinberir starfsmenn hafa látið greiða sér slíkt uppsafnað orlof, en aðrir ekki. Hafa reglur um þetta nú víða verið hertar og starfsmönnum ekki leyft að safna upp orlofi í stað þess að nýta það. Skýtur skökku við, að Dagur skuli ekki hafa nýtt sér orlof, úr því að hann upplýsti sumarið 1918, að hann hefði greinst með sjaldgæfan gigtarsjúkdóm, sem skerti hreyfigetu og halda yrði niðri með sterkum lyfjum.   
Ólíkt hafast valdsmenn að. Þegar Davíð Oddsson lét af starfi borgarstjóra sumarið 1991, átti hann rétt á biðlaunum í sex mánuði óháð því, hvað hann tæki sér þá fyrir hendur. Hann ákvað að þiggja þau ekki, enda tók hann strax við stöðu forsætisráðherra. Sverrir Hermannsson, sem fór vorið 1988 beint af þingi í bankastjórastarf, heimtaði hins vegar biðlaun sem þingmaður. Var málið þá skoðað sérstaklega og komist að þeirri niðurstöðu, að skylt væri að greiða Sverri launin, úr því að hann færi fram á það. Enn fremur má nefna, að á ríkisstjórnarárum Davíðs og raunar fyrr og síðar gátu makar ráðherra fengið hálfa dagpeninga ráðherra, þegar þeir fóru með þeim í utanlandsferðir. Var það sumum ráðherrahjónum drjúg tekjulind. Ástríður Thorarensen, eiginkona Davíðs, þáði hins vegar ekki dagpeninga í slíkum ferðum.
Þegar Davíð var flæmdur úr Seðlabankanum í ársbyrjun 2009, var ráðinn norskur maður í stöðu seðlabankastjóra þrátt fyrir skýr ákvæði stjórnarskrárinnar um, að embættismenn skyldu vera íslenskir ríkisborgarar, enda eiga þeir að gæta mikilvægra hagsmuna Íslands gagnvart útlendingum. (Rifja má upp, að árið 1262 höfðu Íslendingar skilið það til í samningum við Noregskonung, að embættismenn skyldu íslenskir vera.) En Davíð hafði verið ráðinn seðlabankastjóri haustið 2005 til sjö ára, svo að hann átti eftir rösk þrjú ár af ráðningartíma sínum. Átti hann tvímælalaust rétt á fullum launum allt þetta tímabil, en kaus að krefjast þeirra ekki.
Ef til vill er líka kominn tími til að segja sannleikann um eftirlaunafrumvarpið umdeilda.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. ágúst 2024.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband