19.8.2024 | 16:38
Uppreisnin í Varsjá 1944
Böðullinn drepur tvisvar, fyrst með byssukúlunni, síðan með þögninni, sagði Elie Wiesel. Því skiptir máli að halda á lofti minningunni um fórnarlömb alræðisstefnunnar, nasisma og kommúnisma. Eitt áhrifamesta safn, sem ég hef komið í, er í Varsjá. Það er um uppreisnina, sem hófst þar í borg 1. ágúst 1944, fyrir áttatíu árum.
Þetta var sorgarsaga. Með griðasáttmála í ágúst 1939 skiptu Hitler og Stalín Mið- og Austur-Evrópu á milli sín. Í beinu framhaldi réðst Hitler á Pólland 1. september og lagði undir sig vesturhluta landsins. Sögðu Bretland og Frakkland Þýskalandi stríð á hendur, enda voru ríkin tvö skuldbundin til að liðsinna Pólverjum í átökum. Stalín réðst á Pólland 17. september og lagði undir sig austurhlutann, en Bretar og Frakkar höfðust nú ekki að. Hitler rauf hins vegar griðasáttmálann í júní 1941 og réðst á Rússland. Hann hafði horft upp á hina löku frammistöðu Rauða hersins í vetrarstríðinu við Finna 19391940 og hélt, að auðvelt yrði að ráða niðurlögum ráðstjórnarinnar, en eftir það gæti hann beygt Breta eins og Frakka áður.
Liðu nú ár. Sumarið 1944 var ljóst, að nasistar væru að tapa stríðinu. Rauða hernum hafði vaxið ásmegin, og sótti hann fram til vesturs. Þá sá pólska andspyrnuhreyfingin sér leik á borði og hóf uppreisn í Varsjá. En Stalín stöðvaði her sinn á austurbakka Vislu, sem rennur í gegnum Varsjá. Þaðan fylgdust Rússar aðgerðalausir með nasistum berja niður uppreisnina af ótrúlegri grimmd. Stalín leyfði ekki einu sinni flugvélum bandamanna, sem vörpuðu vistum niður í borgina, afnot af flugvöllum sínum. Hann vildi ekki sjálfstætt Pólland. Pólsku uppreisnarmennirnir gáfust upp 2. október. Hitler skipaði her sínum að leggja Varsjá í rúst, en fyrst gengu þýskir hermenn hús úr húsi og drápu alla, sem þeir gátu. Um þetta má ekki þegja.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. ágúst 2024.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:42 | Facebook