Aix, júlí 2024

Á sumarskóla hagfræðideildar Aix-Marseille-háskóla, eins stærsta háskóla Frakklands, í Aix-en-Provence 12. júlí 2024 var mér boðið að tala um norræna frjálshyggju. Í útúrdúr í upphafi kvaðst ég hafa komist að því í rannsókn minni á frjálslyndri íhaldsstefnu, að hin franska frjálshyggjuhefð hefði verið vanmetin, ekki síst af Frökkum sjálfum. Þeir Benjamin Constant, Frédéric Bastiat, Alexis de Tocqueville og Bertrand de Jouvenel hefðu seilst víðar og dýpra en breskir nytjastefnumenn.

Hin norræna frjálshyggjuhefð væri líka vanmetin, þótt Montesquieu hefði raunar viðurkennt, að vestrænt frelsi hefði orðið til með germönskum þjóðum. Snorri Sturluson hefði talið vald bundið samþykki þegnanna, en þeir mættu afhrópa konunga, sem færu ekki að lögum. Anders Chydenius hefði á undan breskum hugsuðum lýst gróða án taps og samstillingu án valdboðs. Nikolaj F. S. Grundtvig hefði beitt sér fyrir alþýðumenntun í þágu lýðræðis og lýst samtakamætti frjálsra þjóða.

Velgengni Norðurlanda væri þrátt fyrir jafnaðarstefnu, ekki vegna hennar. Þær hefðu brotist til bjargálna og tekjudreifing orðið tiltölulega jöfn, áður en jafnaðarmenn fengu völd á fjórða áratug tuttugustu aldar. Þessi velgengni hvíldi á traustu réttarríki með langa hefð að baki, frjálsum alþjóðaviðskiptum og ríkri samkennd, sem hefði haft í för með sér verulegt traust manna í milli, en það auðveldaði lífsbaráttuna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. júlí 2024.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband