Kári Stefánsson og Matt Ridley

Í Morgunblaðinu 23. júlí deilir Kári Stefánsson forstjóri á vísindarithöfundinn Matt Ridley, sem var á rabbfundi í Háskólanum 17. júlí, meðal annars um uppruna kórónuveirunnar, en hún olli dauða meira en tuttugu milljóna manna og setti alla heimsbyggðina á annan endann í tvö ár. Kári segir, að „Matt virðist hafa lagt áherslu á kenningar um uppruna veirunnar sem eru ekki vísindalegar vegna þess að það er ekki hægt að afsanna þær. Þær eru einfaldlega tilgátur sem eru studdar mjög fátæklegum gögnum ef nokkrum.“ Ég lærði það einmitt af vísindaheimspekingnum Karli R. Popper, eins og Kári hefur bersýnilega líka gert, að óhrekjanlegar kenningar eru varla vísindalegar. Þær mynda lokuð kerfi og geyma í sér skýringar á öllum frávikum, til dæmis marxismi og sálgreining. Þar hefur tilgátan alltaf rétt fyrir sér.

Ég bauð Kára á fundinn, en hann komst ekki. Hefði hann verið þar, þá hefði hann raunar heyrt mig spyrja Ridley, hvað þyrfti til að afsanna kenninguna um, að kórónuveiran hefði sloppið út af rannsóknarstofu í Wuhan, en Ridley telur það sennilegt og þó ekki sannað. Ridley svaraði: Ef eitthvert dýr finnst, sem ber veiruna í menn. Engin slík smitleið hefur fundist, ólíkt því sem var um aðra eldri kórónuveiru, sem upprunnin var í Guangdong-héraði í Kína og olli lungnafaraldri árið 2003 (SARS-1, sem kallað var, en heimsfaraldurinn núna heitir SARS-2). Tilgáta Ridleys um uppruna kórónuveirunnar er því í eðli sínu afsannanleg. Kári hefur rangt fyrir sér um þetta atriði. Væri hægðarleikur fyrir kínversk stjórnvöld að afsanna þessa tilgátu, væri hún röng, með því að opna allar gáttir fyrir vísindamönnum. Þess í stað hafa þau takmarkað mjög aðgang að upplýsingum. Hvers vegna hvílir þessi leynd yfir, ef engu er að leyna?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. júlí 2024.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband