Fólksfjölgun örvar framfarir

2022-08-19-Marian TupyÁrið 1968 gaf bandaríski vistfræðingurinn Paul R. Ehrlich út bókina Fólksfjölgunarsprengjuna (The Population Bomb). Upphafsorð hennar voru, að ekki væri lengur gerlegt að fæða allt mannkyn. Á næstu árum myndu hundruð milljóna falla úr hungri, hvað svo sem gert yrði. Margir aðrir samsinntu því, að fólksfjöldi í heiminum væri að nálgast þolmörk, til dæmis höfundar bókanna Endimörk vaxtarins og Heimur á helvegi, sem báðar komu út á íslensku um svipað leyti. En landi Ehrlichs, hagfræðingurinn Julian L. Simon, andmælti honum og kvað fólksfjölgun örva framfarir. Bauð hann Ehrlich veðmál. Hefði Simon rangt fyrir sér, þá ættu helstu hráefni að hækka í verði, því að þau væru að ganga til þurrðar. Ehrlich tók boðinu og fékk að velja fimm hráefni og eitt tímabil. Hann valdi kopar, króm, nikkel, tin og tungsten og næstu tíu ár. Áratugurinn leið, og þá var málið gert upp. Simon reyndist hafa rétt fyrir sér. Þessi hráefni höfðu öll lækkað í verði. Þau voru ekki að ganga til þurrðar. Ehrlich varð að greiða Simon umsamda upphæð. Því fer líka fjarri, að hrakspár Ehrlichs um yfirvofandi hungursneyðir vegna fólksfjölgunar hafi ræst. Staðbundnar hungursneyðir hafa verið fáar og allar vegna stríðsátaka. Miklu fleiri hafa nú nóg til hnífs og skeiðar en á nokkru öðru tímabili mannkynssögunnar. Sár fátækt eða örbirgð hefur snarminnkað. Árið 1820 voru jarðarbúar 1,1 milljarður, og þá bjuggu 965 milljónir við örbirgð, 90 af hundraði. Árið 2015 voru jarðarbúar orðnir 7,3 milljarðar, og þá bjuggu 734 milljónir við örbirgð, 10 af hundraði, aðallega í Afríku.

Fólksfjölgun og tímaverð

Í stórfróðlegri nýrri bók, Allsnægtum (Superabundance), leggja þeir dr. Marian Tupy, sérfræðingur í Cato-stofnuninni í Washington-borg, og prófessor Gale L. Pooley í Brigham Young-háskólanum á Havaí, út af hinu fræga veðmáli Ehrlichs og Simons. Þeir leiða sterk rök að tveimur kenningum: 1) Fólksfjölgun ætti ekki að vera áhyggjuefni við frjálst atvinnulíf, því að þar skapar hver nýr einstaklingur að jafnaði meiri verðmæti en hann neytir. Auðlindir eru síður en svo að ganga til þurrðar. 2) Framfarir hafa verið miklu örari og meiri en fram kemur í venjulegum mælingum, ef miðað er við tímaverð gæða frekar en peningaverð þeirra. Með tímaverði gæða eiga höfundarnir við þann tíma, sem það tekur að vinna fyrir gæðunum. Setjum svo, að brauðhleifur kosti 200 krónur, en maður fái í laun 2.000 krónur á tímann. Þá kostar hleifurinn sex mínútur. En gerum nú ráð fyrir, að hleifurinn hækki í 220 krónur, en tímakaupið í 2.400 krónur. Þá kostar hleifurinn fimm mínútur og 24 sekúndur. Tímaverð hans hefur lækkað. Afkoma neytandans hefur að sama skapi batnað. Hann hefur úr meiru að moða. Ef mönnum finnast þessar tvær kenningar Tupys og Pooleys heldur óvæntar, þá er það sennilega vegna þess, að þeir telja auðlindir, þar á meðal náttúruauðlindir, fasta og óbreytanlega stærð, svo að minna sé fyrir einn, þegar meira sé fyrir annan. Það er hins vegar rakinn misskilningur, eins og reynslan sýnir. Magn auðlinda er aðallega háð verði þeirra. Raunar er maðurinn sjálfur mikilvægasta auðlindin, segir Simon, uppspretta nýjunga, handhafi þekkingar og kunnáttu.

Því má ekki gleyma, að hver nýr einstaklingur er ekki aðeins munnur að metta, heldur líka hugur, sem getur aflað þekkingar og miðlað henni, og tvær hendur, sem beita má af kunnáttu og lagni. Hann er ekki aðeins neytandi, heldur líka framleiðandi, stundum jafnvel frumkvöðull. Höfundarnir nefna dæmi. Steve Jobs fæddist í Bandaríkjunum og var ættleiddur við fæðingu, en blóðfaðir hans var frá Sýrlandi. Erfitt er að ímynda sér, hvað hefði orðið úr honum, hefði hann fæðst og alist upp í Sýrlandi, en í Bandaríkjunum stofnaði hann hið myndarlega fyrirtæki Apple öllum til góðs. Hin gamalkunna mynd af mannþröng í tötrum með sultarglampa í augum, ýmist á Indlandi eða í Kína, var auðvitað ófölsuð, en hún var af aðstæðum, þar sem framtak einstaklinganna var lamað og fá sem engin tækifæri til að brjótast úr fátækt í bjargálnir. Framfarir verða við frelsi manna til að skapa, smíða ný tæki, stofna ný fyrirtæki, neyta þekkingar sinnar, kunnáttu og hæfileika hver á sinn hátt. Þar ræður síðan úrslitum aðgangurinn að mörkuðum, þar sem á það reynir, hvort nýjungar séu þarfar eða þarflausar.

Stórkostlegar framfarir

Þeir Tupy og Pooley taka mörg fróðleg dæmi um raunverulegar framfarir, eins og þær mælast í tímaverði. Eitt dæmið er, að árið 1800 kostaði það 5,37 vinnustundir venjulegs verkamanns að kaupa sér ljós í eina klukkustund. Nú kostar það innan við 0,16 sekúndur. Þetta er ótrúlegt. (Í fyrirlestrum mínum forðum í Háskólanum bar ég iðulega saman fyrirhöfnina við að framleiða eitt eintak af Njálu í lok þrettándu aldar og tímann, sem það tæki venjulegan launamann nú á dögum að vinna fyrir eintaki.) Ef til vill er eðlilegast að skoða þróunina síðustu sextíu árin, frá 1960. Jarðarbúum hefur fjölgað úr þremur í átta milljarða, en hráefni hafa samt sem áður fallið í tímaverði. Sum hráefni, gúmmí, te, tóbak, pálmaolía, kaffi og bómull, hafa lækkað um hvorki meira né minna 90 af hundraði. Að meðaltali hefur öll hrávara lækkað um 83 af hundraði. Landbúnaður í Bandaríkjunum er orðinn svo hagkvæmur, að aðeins starfa við hann um tveir af hundraði íbúa. Höfundar hafa reiknað út, að yrði landbúnaður annars staðar jafnhagkvæmur, þá gætu 146 milljónir hektara ræktaðs lands horfið aftur til náttúrunnar. Mér fannst einn samanburður í bók þeirra afar fróðlegur, þótt hann snerist raunar ekki um tímaverð. Öryggi í flugi hefur snaraukist. Frá 1968 til 1977 dó einn maður af hverjum 350.000 farþegum, sem stigu um borð í flugvél. En frá 2008 til 2017 dó einn maður af hverjum 7,9 milljónum.

Svo vel vill til, að annar höfundur bókarinnar, Marian Tupy, er staddur á Íslandi, og ætlar hann að rabba um hana við áhugamenn miðvikudaginn 24. júlí klukkan 16.30 síðdegis í stofu 101 á Háskólatorgi, HT-101, en á eftir verða frjálsar umræður. Tupy fæddist í Slóvakíu, ólst upp í Suður-Afríku, lauk doktorsprófi í alþjóðastjórnmálum frá St. Andrews-háskóla í Skotlandi, en býr nú í Bandaríkjunum. Hann er ritstjóri nettímarits um framfarir hjá Cato-stofnuninni og hefur gefið út eina bók áður. Mörg viðtöl eru til við hann á Youtube, þar á meðal eitt, sem Jordan Peterson tók, en á það hefur horft ein og hálf milljón manns. Margar spurningar hljóta að vakna við lestur bókar þeirra Pooleys. Hvernig stendur á því, að svo margir trúa því, að heimurinn fari versnandi? Gildir ekki lögmálið um minnkandi afrakstur um fólksfjölda eins og annað? Hafa andlegar framfarir (menn orðið betri menn) orðið jafnhliða hinum ótvíræðu efnislegu framförum síðustu tveggja alda? Hvernig á að bregðast við þeim, sem leggja ekkert af mörkum, þótt þeir séu fullfærir um það? Hvers vegna er kapítalisminn svo vinafár þrátt fyrir sköpunarmátt sinn? Rannsóknarmiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, RSE, heldur fundinn. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

(Grein í Morgunblaðinu 23. júlí 2024.)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband