18.7.2024 | 11:03
Cluj, júní 2024
Cluj (frb. Klúds) er næststærsta borg Rúmeníu, og hefur Transylvaníu löngum verið stjórnað þaðan. Á þýsku hét Transylvanía áður fyrr Siebenbürgen, Sjöborgaland, og var Cluj ein borganna sjö og hét þá Klausenburg. Þá var Sjöborgaland hluti Habsborgarveldisins, en var sameinað Rúmeníu eftir fyrri heimsstyrjöld. Cluj er notaleg og hreinleg borg, og prýða hana mörg falleg hús frá Habsborgartímanum. Þar er stærsti háskóli Rúmeníu, Babes-Bolyai, og talaði ég þar 30. júní 2024 á ráðstefnu.
Erindi mitt nefndist Evrópusambandið eftir nýliðnar kosningar til Evrópuþingsins. Ég kvað evrópska kjósendur afdráttarlaust hafna tveimur hugmyndum, sem skriffinnarnir í Brüssel reyna að troða upp á þá. Önnur er ótakmarkaður innflutningur fólks, sem vill ekki laga sig að siðum og venjum Evrópuþjóða. Hin er afnám þjóðríkisins og tilraun til að breyta Evrópusambandinu í stórveldi, sem keppt gæti við Bandaríkin.
Hvað er til ráða? Að efla nálægðarregluna, sem er í orði kveðnu leiðarstjarna ESB, en hún er, að ákvarðanir séu teknar sem næst þeim, sem þær varða. Í því sambandi reifaði ég ýmsar tillögur, til dæmis um stofnun sérstaks dómstóls, sem úrskurðaði um verkaskiptingu og valdsvið ESB og aðildarríkja þess í ljósi nálægðarreglunnar, og um að flytja löggjafarvaldið frá framkvæmdastjórn ESB til Evrópuþingsins, en breyta framkvæmdastjórninni í stjórnsýslustofnun. ESB er komið til að vera, en kjörorð þess ætti auk frjálsra viðskipta að vera valddreifing.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. júlí 2024.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.8.2024 kl. 16:22 | Facebook