Ævisaga Miltons Friedmans

friedman.reaganJennifer Burns, sagnfræðingur í Stanford-háskóla, hefur gefið út ævisöguna Milton Friedman: The Last Conservative. Bókin er vönduð, sanngjörn og fróðleg. Í ritdómi í nettímaritinu The Conservative gerði ég þó þrjár efnislegar athugasemdir.

Höfundur bendir á hinn mikla stuðning, sem Friedman hlaut af tveimur konum, eiginkonu sinni Rose, sem aðstoðaði hann við mörg rit hans, og hagfræðingnum Önnu J. Schwartz, sem var meðhöfundur hans að Peningamálasögu Bandaríkjanna. En Friedman gerir alls ekki lítið úr þessari aðstoð.

Höfundur telur andstöðu Friedmans við lagasetningu árið 1964 um bann við mismunun eftir hörundslit eða kynferði varpa skugga á feril hans. Friedman var auðvitað andvígur slíkri mismunun. Hann taldi hins vegar heppilegast að auka tækifæri minnihlutahópa til að brjótast úr fátækt í bjargálnir á frjálsum markaði. Ef mismunun kostaði þann, sem mismunar, verulegar upphæðir, þá minnkaði mismunun af sjálfri sér. Hleypidómar hyrfu ekki, þegar sett væru lög gegn þeim, heldur þegar þeir reyndust of dýrir.

Höfundur telur, þótt hún láti það ekki beinlínis í ljós, að Friedman hefði ekki árið 1975 átt að veita umbótaáætlun Chicago-drengjanna svonefndu í Síle stuðning opinberlega, þótt hún bendi á, að hann átti þar engan annan hlut að máli. Hér ætlast hún til dygðaskreytingar (virtue signalling). En Friedman veitti öllum stjórnvöldum sömu ráð: um viðskiptafrelsi, valddreifingu og einkaeignarrétt. Þessi ráð þáðu jafnólíkir aðilar og herforingjastjórnin í Síle, stjórn íhaldsmanna í Bretlandi og stjórn jafnaðarmanna á Nýja Sjálandi. Sem betur fer.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. júní 2024.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband